Ríkisstjórn Spánar hefur lýst yfir neyðarástandi í Madríd og nágrenni svo hægt sé að setja svæðið að hluta í útgöngubann. Þar hefur kórónuveirusmitum fjölgað hratt að undanförnu.
Þetta er gert í kjölfar þess að dómstóll dæmdi í gær fyrri aðgerðir stjórnvalda ólöglegar og brjóta gegn mannréttindum fólks.
Kórónuveirusmitum hefur fjölgað hratt í nokkrum ríkjum Evrópu undanfarna daga, þar á meðal Bretlandi, Frakklandi og Spáni. Sama á við um Þýskaland og segir Angela Merkel kanslari að ef þróunin verður áfram sú sama verði að herða sóttvarnareglur.
Aðstoðarforsætisráðherra Norður-Írlands, Michelle O'Neill, er komin í sóttkví eftir að fjölskyldumeðlimur hennar greindist með Covid-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sinn Féin. O'Neill og forsætisráðherra heimastjórnarinnar, Arlene Foster, kynntu í gær nýjar aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar á Norður-Írlandi. Alls eru 906 látnir af völdum Covid-19 á Norður-Írlandi.
Sveitarstjórnir í norðausturhluta Englands segjast ekki munu samþykkja breytingar á sóttvarnareglum á svæðinu, þar á meðal að börum og veitingastöðum verði lokað. Ríkisstjórn Bretlands undirbýr nú birtingu nýrra reglna sem gilda um ákveðin svæði.
Á mánudag var greint frá því á vef ITV að ríkisstjórn Írlands hefði hafnað tillögum sóttvarnalæknis þar í landi. Lagt var til að allt landið yrði sett á hæsta viðbúnaðarstig. Þess í stað ætli ríkisstjórnin að færa viðbúnað yfir á þriðja stig en alls eru stigin fimm.
Yfirvöld í Skotlandi og Wales hafa tilkynnt að öllum börum og veitingastöðum verði gert að loka tímabundið vegna veirunnar.
Í Skotlandi hafa sex sjúklingar látist úr Covid-19 síðasta sólarhringinn og að sögn Nicolu Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, voru 1.246 ný smit staðfest þar síðasta sólarhringinn og hafa aldrei verið svo mörg á einum sólarhring.
Stjórnvöld í Póllandi greindu frá því í dag að 4.739 hefðu greinst með kórónuveiruna þar í landi síðasta sólarhringinn og 52 látist. Alls hafa 116.338 smitast þar í landi og 2.929 látist.
Aldrei fyrr hafa jafn margir greinst með Covid-19 í Rússlandi á einum degi og nú eða 12.126. Fyrra metið er frá 11. maí er smitin voru 11.656 talsins. Alls hafa 1.272.238 smit verið staðfest í Rússlandi frá upphafi og af þeim eru 22.257 látnir.