Mótmælendur klifruðu upp Eiffel-turninn

AFP

Átta meðlimir umhverfissamtakanna Extinction Rebellion klifruðu upp utanverðan Eiffel-turninn í París og hengdu á hann bleikan borða. Á borðanum stóð REBEL, en gjörningurinn á að vera sá fyrsti af mörgum í vikunni.

Klifurgarparnir átta voru handteknir vegna gjörningsins, en að sögn skipuleggjenda fengu þeir aðstoð fjölda meðlima samtakanna sem voru inni í turninum.

Mótmælasamtökin heimta að frönsk yfirvöld taki til frekari aðgerða í þágu loftslagsmála, en talskona samtakanna, Lea Lecouple, sagði að kórónuveiran væri aðeins einkenni stærri vandamála.

Bleikur borði var hengdur á Eiffel-turninn.
Bleikur borði var hengdur á Eiffel-turninn. AFP

„Covid er aðeins einkenni. Það þarf vírus til að knésetja hagkerfið. Við höfum séð að losun koltvíoxíðs getur minnkað,“ sagði Lecouple.

„Við viljum segja: Hættum öllu. Opnum augun, þetta er neyðarástand.“

Extinction Rebellion eru alþjóðleg umhverfissamtök sem hafa mótmælt víða um heim og notað borgaralega óhlýðni til að vekja athygli á loftslagsvánni.

Fyrstu stóru mótmæli samtakanna fóru fram í apríl 2019 í Lundúnaborg, þegar þau lokuðu götum borgarinnar í 11 daga. Samtökin mótmæltu einnig í Lundúnum í byrjun september.

Frá mótmælum Extinction Rebellion í Berlín í byrjun Október.
Frá mótmælum Extinction Rebellion í Berlín í byrjun Október. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert