„Aðför að frjálsri blaðamennsku“

Kristinn segir að um sé að ræða aðför að frjálsri …
Kristinn segir að um sé að ræða aðför að frjálsri blaðamennsku og gagnrýnni umræðu. AFP

„Það er mitt mat að þetta sé mesta aðför að frjálsri blaðamennsku á minni lífstíð í okkar vestræna heimi,“ segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, í samtali við mbl.is um réttarhöld um framsal Julians Assange til Bandaríkjanna.

Réttarhöldin stóðu yfir í fjórar vikur, en Assange á yfir höfði sér 175 ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum vegna birtingar á gögnum sem varða meðal annars stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan og ómannúðlega meðferð fanga í Guantanamo-fangelsinu.

Tilkynnt hefur verið að úrskurður í málinu verði tilkynntur 4. janúar, en Kristinn telur að hvernig sem málið fer megi búast við því að málinu verði áfrýjað.

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. AFP

Flest ákæruatriðin eru á grundvelli brandarískrar njósnalöggjafar frá 1917 sem hefur verið notuð til að ákæra uppljóstrara í Bandaríkjunum, en löggjöfinni hefur aldrei verið beitt gegn útgefanda og blaðamanni sem birtir upplýsingar.

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hafa lýst yfir þungum áhyggjum af að löggjöfin skuli vera notuð gegn birtingaraðila, en samtökin hafa lýst aðför bandarískra stjórnvalda að Assange sem „allsherjarárás á tjáningarfrelsið“.

Umgjörðin takmörkuð vegna veirunnar

Kristinn var viðstaddur réttarhöldin, en í færslu á Facebook-síðu sinni segist hann hafa átt í basli með að átta sig á þeirri „skefjalausu grimmd sem [hann] varð vitni að,“ og lýsir réttarhöldunum sem „ógeðfelldu yfirskini sýndarmennsku réttlátrar málsmeðferðar í svokölluðu réttarríki“.

Kristinn segir í samtali við mbl.is að kórónuveirufaraldurinn hafi leikið stórt hlutverk í réttarhöldunum. Umgjörðin var takmörkuð. Vitnaleiðslur fóru margar hverjar fram í gegnum fjarskiptabúnað og mikið var um tafir vegna tæknilegra örðugleika. Í sumum tilfellum þurfti að lesa inn skriflegar vitnaleiðslur, sem hafi dregið úr vægi og gildi þeirra.

Þá hafi vilji dómarans til að hafa réttarhöldin fyrir opnum dyrum einnig haft áhrif á umgjörð þeirra.

Eins og mbl.is greindi frá við upphaf réttarhaldanna ákvað dómari málsins að draga til baka streymisaðgang til um fjörutíu aðila sem höfðu beðið um aðgang sem eftirlitsaðilar í málinu. Að lokum var réttarhöldunum streymt í hliðarsal í Old Bailey-dómshúsinu, þar sem blaðamenn höfðu aðgang, og að lokum komust samtökin Blaðamenn án landamæra og Amnesty International þangað inn.

Aðgangur var engu að síður afar takmarkaður og fá sæti voru í dómshúsinu. Kristinn og kærasta Assange fengu sæti sem hluti af lögmannateyminu á þeim forsendum að þau hefðu aðstoðað við rannsókn málsins, en aðeins örfá pláss voru fyrir fjölskyldu og stuðningsmenn Assange.

Meðhöndlaður eins og sakfelldur maður

Kristinn segir einnig að viðmót dómara málins hafi hallað á Assange. „Það var ljóst þeim sem sátu í réttarsal að í öllum sínum úrskurðum um ágreiningsmál gekk dómarinn iðulega gegn Julian og tók miklu meira tillit til óska ákæruvaldsins,“ segir Kristinn.

Mótmælendur komu oft saman fyrir utan dómshúsið í Lundúnum og …
Mótmælendur komu oft saman fyrir utan dómshúsið í Lundúnum og heimtuðu að Assange yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna. AFP

Assange var meinað að sitja með lögmönnunum sínum og var hafður í glerbúri á sakamannabekk. Hann hafi þurft að sæta óþarflega íþyngjandi meðferð af hálfu fangelsisins þegar hann var fluttur úr Belmarsh-fangelsinu í Suðaustur-Lundúnum að dómshúsinu. Hann hafi meðal annars verið vakinn klukkan 5 á morgnana, handjárnaður og berháttaður við líkamsleit.

„Hann var meðhöndlaður eins og sakfelldur maður, þegar hann var í raun og veru saklaus samkvæmt öllum réttarfarsreglum,“ segir Kristinn.

„New York Times-vandamálið“

Í frétt Washinton Post frá 2013 kemur fram að ólíklegt væri að ríkisstjórn Obama Bandaríkjanna myndi lögsækja Assange vegna birtingar á skjölum sem lekið var til þeirra, þar sem ekki væri hægt að gera greinarmun á birtingu Wikileaks og birtingu samstafsfjölmiðla þeirra, á borð við The New York Times og The Guardian. Myndi slík lögsókn því brjóta gegn fyrsta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna. Talað er um „New York Times-vandamálið“ í því samhengi.

Þá hafi dómsmálaráðuneyti Donalds Trump tekið málið upp á ný og heldur því fram í ákæruliðum málsins að Assange sé sekur um samsæri í samstarfi við Chelsea Manning, sem var handtekin fyrir að leka stríðsskjölum Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan til Wikileaks. Assange hafi þess vegna verið þátttakandi í öflun upplýsinganna, en ekki aðeins birtingaraðili eða blaðamaður.

Kristinn segir að slíkar ásakanir eigi ekki við nein rök að styðjast og að fjöldi sérfræðinga og vitna hafi sökkt þeim ásökunum. Ákæran snúist fyrst og fremst um birtingu, geymslu og dreifingu upplýsinganna.

Aðför að frjálsri blaðamennsku

Kristinn ítrekar að gríðarlega mikið sé undir í þessu máli, ekki síst fyrir frjálsa fjölmiðlun um heim allan. Hann segir að yrði Assange framseldur til Bandaríkjanna yrði það mesta áfall fyrir frjálsa blaðamennsku í hinum vestræna heimi á okkar tímum.

„Þarna er verið að ákæra mann sem er ekki bandarískur ríkisborgari fyrir brot á bandarískum lögum, fyrir meint brot sem var ekki framkvæmt í Bandaríkjunum, en var að mati bandarískra yfirvalda, með einhverjum ótrúlegum snúningstilþrifum röksemdafærslu, þjóðaröryggismál í mjög víðum og breiðum skilningi,“ segir Kristinn.

AFP

„Þetta þýðir einfaldlega að ef þetta gengur eftir þá er enginn blaðamaður, hvar sem hann er í heiminum, öruggur gagnvart ofsóknum af þessu tagi þegar viðkomandi birtir upplýsingar sem Bandaríkjamenn líta á að gangi gegn sínum hagsmunum. Hvort sem sem það sé blaðamaður í Reykjavík eða í einhverju örðu ríki.“

Hann segir að málið geti orðið rothögg fyrir alla gagnrýna umræðu og gagnrýnan fréttaflutning, sérstaklega þegar kemur að þjóðaröryggis- og hernaðarmálum.

„Það er mitt mat að þetta sé mesta aðför að frjálsri blaðamennsku á minni lífstíð í okkar vestræna heimi,“ segir Kristinn. „Það er miklu meira undir en líf eins manns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka