Saksóknarar í Grikklandi fóru í dag fram á 13 ára dóm yfir leiðtogum gríska nýnasistaflokksins Gullinnar dögunar.
Sex dagar eru frá samtökin voru úrskurðuð skipulögð glæpasamtök og leiðtogi flokksins, Nikos Michaloliakos, og sex aðrir lykilmenn fundnir sekir um að hafa farið fyrir glæpasamtökum. Það kemur í hlut þriggja dómara að leggja mat á tillögurnar og úrskurða um refsingu. Von er á niðurstöðu á fimmtudag.
Rannsókn málsins hófst árið 2013 eftir að andfasískur tónlistarmaður hafði verið myrtur. Málið vatt upp á sig og voru tengsl flokksmanna við hina ýmsu glæpi, morð, íkveikjur, rán og hótanir rannsökuð. Á sjöunda tug manna voru á endanum sakfelldir, þar af einn fyrir morðið á rapparanum og fimmtán vitorðsmenn.
Meðal þeirra glæpa sem innstu koppar í búri flokksins voru fundnir sekir um, er fyrrnefnt morð á andfasíska rapparanum Pavlos Fyssas og líkamsárás í garð egypskra sjómanna árið 2012 og í garð hóps kommúnista árið 2013.
Héldu saksóknarar því fram að flokkurinn væri rekinn líkt og her undir stjórn formannsins Michaloliakos, og fyrirmyndin væri bersýnilega Nasistaflokkur Hitlers. Við húsleitir á heimili flokksmanna árið 2013 komu enda mikið af skotvopnum og minjagripum tengdum Nasistaflokknum í ljós.
Michaloliakos hefur sjálfur lýst réttarhöldunum sem „pólitískum nornaveiðum“. „Við vorum fordæmdir fyrir hugmyndir okkar,“ skrifaði hann á Twitter, í einu af sínum síðustu tístum áður en Twitter lokaði reikningi hans.