Donald Trump Bandaríkjaforseti fór mikinn á fundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída í gærkvöldi eftir að hafa þurft að halda sig fjarri stuðningsmönnum sínum í tíu daga vegna kórónuveirusmits.
Hann segist vera í frábæru formi og til í tuskið. „Ég komst í gegnum þetta og nú segja þeir mér að ég sé ónæmur,“ sagði Trump við stuðningsmenn sína í Sanford í Flórída og fögnuðu þeir ákaft. Afar fáir þeirra voru með grímur og Trump bar heldur ekki grímu en henti grímum inn í þvöguna þegar hann steig á svið. Hann segist vera svo kraftmikill og vilji kyssa alla í salnum. „Ég kyssi ykkur karlar og fallegu konur. Ég ætla að gefa ykkur stóran feitan koss,“ sagði Trump en vika er síðan hann var útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að hafa þurft á súrefnisgjöf að halda vegna Covid-19.
Læknateymi Trumps segir að hann hafi verið neikvæður í sýnatöku tvo daga í röð og því ekki smitandi.Trump flaug til Flórída í gær en það er fyrsta ríkið af fjórum sem hann ætlar að heimsækja á jafn mörgum dögum. Aðeins þrjár vikur eru til kosninga en engar sannanir eru fyrir því að hann sé ónæmur.
Trump fór mikinn í klukkustundarlangri ræðu sinni á fundinum í gær og notaði sömu orð og yfirleitt: Spilltir fjölmiðlar, spilltir demókratar, öfgafullir vinstrimenn, sósíalísk martröð og svo mætti lengi telja.
Hann hélt líka uppteknum hætti hvað varðar að uppnefna fólk og var tíðrætt um „Sleepy Joe," þegar hann talaði um andstæðing sinn Joe Biden, frambjóðanda demókrata. Sagði Trump að nánast enginn mætti á kosningafundi Bidens.
Ólíkt Trump þá hefur Biden fylgt ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum varðandi kórónuveirufaraldurinn og haldið fast í að fjarlægðarmörk yrðu virt. Trump hefur hins vegar ekki látið smáatriði eins og 1-2 metra reglu trufla fundi eða að krefjast þess að gestir væru með grímur á samkomum og fundum.
Trump sagði áheyrendum að hann elskaði Flórída og segir að það sama muni gerast og fyrir fjórum árum. Þegar því hafi verið haldið fram að hann yrði að láta í minni pokann fyrir Hillary Clinton í Flórída en raunin varð önnur.
Biden gagnrýndi harðlega áætlun Trumps um að fara til Flórída og segir að forsetinn hafi virt að vettugi þá skelfilegu staðreynd að Covid-19 hafi dregið 15 þúsund íbúa ríkisins til dauða.
Síðar í dag mun Trump standa fyrir samkomu í Johnstown, Pennsylvaníu og þaðan fer hann til Iowa og Norður-Karólínu. Biden nýtur meiri stuðnings meðal kjósenda samkvæmt samantekt RealClearPolitics en Trump hafði betur en Clinton í öllum þessum ríkjum fyrir fjórum árum.
Yfir 10 milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar kosið í forsetakosningunum og er þetta mesta kjörsókn þremur vikum fyrir kjördag í sögunni.