Án árangursríkra mótvægisaðgerða gæti daglegur fjöldi dauðsfalla í Evrópu orðið fimm sinnum hærri á næstu mánuðum en hæsti daglegi fjöldinn í fyrstu bylgju faraldursins. Þá var hápunkti daglegra dauðsfalla í heimsálfunni náð í apríl. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf þetta út í dag.
Hans Kluge, framkvæmdastjóri WHO innan Evrópu, segir að faraldurinn gæti versnað til muna en þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til gætu bjargað mannslífum. Í dag tilkynnti Kluge að metfjöldi vikulegra tilfella í Evrópu hefði verið skráður í þessari viku. Veiran breiðist nú hratt um Evrópu að nýju.
„Faraldsfræðilegar aðstæður í Evrópu vekja miklar áhyggjur. Daglegum tilfellum kórónuveirusmita fjölgar, innlagnir á sjúkrahús eru fleiri og Covid-19 er nú fimmta aðal dánarorsök í álfunni. 1.000 manns falla frá vegna Covid daglega eins og staðan er nú,“ sagði Kluge.
Hann telur þó að ástæða sé til bjartsýni vegna þess að ástandið sé ekki hið sama og í fyrstu bylgju heimsfaraldursins. Hertar aðgerðir sem mörg Evrópuríki hafi gripið til geti bjargað þúsundum mannslífa.
„Við skráum nú tvisvar til þrisvar sinnum fleiri tilfelli daglega en í apríl. Á sama tíma eru dauðsföllin fimm sinnum færri og það tekur tvisvar til þrisvar sinnum lengur fyrir sjúkrahúsinnlagnir að fjölga,“ sagði Kluge og benti á að Evrópa væri nú betur undir faraldurinn búinn en í fyrstu bylgju.