Aftur hafa borist fréttir af dularfullum fljúgandi manni á ferðinni skammt frá alþjóðaflugvellinum í Los Angeles (LAX) en síðast sást til hans við völlinn í september.
Áhöfn um borð í farþegaþotu China Airlines segist hafa séð, að því er virtist, mann í flugbúningi í gær í 1.800 metra hæð um 11 km norðvestur af flugvellinum. Þetta gerðist um kl. 13:45 að staðartíma í gær (kl. 20:45 að íslenskum tíma í gærkvöldi).
Frá þessu greina bandarísk flugmálayfirvöld.
Fram kemur á vef BBC, að bandaríska alríkislögreglan (FBI) sé nú með málið til rannsóknar, sem og svipað atvik og greint var frá í síðasta mánuði.
Ekki liggur fyrir hvort hinn dularfulli þotuhreyfilsflugmaður hafi ógnað öryggi farþegaþotunnar.
Þotupakkinn (e. jetpack) er útbúnaður sem menn festa á sig eins og bakpoka svo að segja, en búnaðurinn nýtir gas eða vökva til að láta menn svífa um loftin blá. Eins og segir í frétt BBC, þá er ekki langt síðan þetta var eitthvað sem menn sáu aðeins í vísindaskáldsögum en tæknin hefur þróast hratt á undanförnum árum og menn notast við slíkan búnað í dag eins og t.d. má sjá í meðfylgjandi frétt sem birtist á mbl í lok síðasta mánaðar.