Sóttvarnaaðgerðir verða hertar í London á laugardag og borgin færð á áhættustig tvö af þremur. Það þýðir að fólk getur ekki farið í heimsóknir né sótt bari og veitingastaði með fólki sem er búsett á öðrum heimilum.
Fastlega er gert ráð fyrir að Essex fylgi í kjölfarið með hertum aðgerðum. Þetta þýðir einnig að fólki er ráðið frá því að nota almenningssamgöngur. Þetta kemur fram í frétt BBC en Manchester og nágrenni verður sett á efsta viðbúnaðarstig, það sama og er í gildi í Liverpool nú þegar.
Að sögn borgarstjórans í London, Sadiq Khan, er ekki annað í boði en að herða reglurnar. Enginn vilji herða reglur en þetta sé nauðsyn til þess að vernda líf íbúa borgarinnar. Khan segir að hann muni áfram þrýsta á að ríkið veiti frekari fjárhagsstuðning og að erfiður vetur sé framundan.
Yfirmaður WHO í Evrópu, Hans Kluge, segir að fjölgun Covid-19 smita í Evrópu sé grafalvarleg þróun en samt megi ekki horfa fram hjá því að staðan er betri nú en í apríl. Covid er nú fimmta algengasta dánarorsökin meðal íbúa í álfunni og nú deyja yfir eitt þúsund manns úr Covid-19 á hverjum degi.
„Þrátt fyrir að ný smit séu tvisvar til þrisvar sinnum fleiri á dag nú en í apríl þá eru dauðsföllin fimm sinnum færri,“ segir Kluge og bætir við að eins sé álagið mun minna á sjúkrahúsum.
Kluge segir að ef slakað verður á aðgerðum gagnvart útbreiðslu veirunnar megi búast við því að dauðsföllin í janúar verði fjórum til fimm sinnum fleiri en þau voru í apríl.
Stjórnendur írska flugfélagsins Ryanair greindu frá því að dag að um enn frekari samdrátt yrði að ræða hjá félaginu í vetur. Starfsstöðum flugfélagsins verður lokað tímabundið í Cork og Shannon á Írlandi og í Toulouse í Frakklandi vegna ferðatakmarkana. Flugferðir á tímabilinu nóvember til mars verður 40% af þeim fjölda sem var fyrir ári síðan. Í síðasta mánuði var flugferðum fækkað í október sem þessu nemur.