Strangar aðgerðir „algjörlega nauðsynlegar“

Hollenskir heilbrigðisstarfsmenn í hlífðarfatnaði frá toppi til táar.
Hollenskir heilbrigðisstarfsmenn í hlífðarfatnaði frá toppi til táar. AFP

Strangar aðgerðir, sem miða að því að lágmarka útbreiðslu kórónuveiru, eru „algjörlega nauðsynlegar“ í baráttu Evrópu við veiruna að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). BBC greinir frá.

Kórónuveiran er fimmta helsta dánarorsök í Evrópu, að sögn Hans Kluge, framkvæmdastjóra WHO innan Evrópu. 

„Það er kominn tími til að stíga upp. Skilaboðin til ríkisstjórna eru: ekki sleppa því að grípa til vægra aðgerða til þess að forðast sársaukafullar og skaðlegar aðgerðir sem við sáum í fyrstu bylgju faraldursins,“ sagði Kluge á blaðamanna fundi í dag. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt ríki til að undirbúa sig og ráðlagt stjórnvöldum að samræma smitrakningu og fyrirhugaða dreifingu bóluefna. 

Tékkar byggja nýtt sjúkrahús

Frá laugardegi verða samkomur innandyra bannaðar í Lundúnum í Bretlandi og útgöngubann tekur gildi í níu borgum í Frakklandi. En ástandið er ekki jafn slæmt í Evrópu og það var í mars og apríl, að mati WHO. 

Á miðvikudag tóku hertar aðgerðir gildi í Hollandi sem gilda í fjórar vikur. Tékkar byggja nú nýtt sjúkrahús fyrir Covid-19 sjúklinga. 

Tékkar hafa, ásamt Þjóðverjum og Katalóníu á Spáni einnig kynnt harðari aðgerðir á sama tíma og smitum fjölgar mikið. Embættismenn í öllum löndunum hafa varað við því að heilbrigðiskerfið gæti brátt hætt að ráða við álagið. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert