Boðar öðruvísi þakkargjörðarhátíð

Anthony Fauci segir að Bandaríkin séu ekki á leið inn …
Anthony Fauci segir að Bandaríkin séu ekki á leið inn í annað allsherjarútgöngubann, en að engu síður séu erfiðar ákvarðanir framundan. AFP

Dr. Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna og ráðgjafi þarlendra stjórnvalda, beinir því til landsmanna að endurskoða áform um stór fjölskylduboð á þakkargjörðarhátíðinni í lok næsta mánaðar. 

Eins segir hann fólki að bera áfram grímur og gæta að fjarlægðarmörkum nú þegar kólnar í veðri og líf færist inn í upphitaðar byggingar, en um leið hvetur hann það til að gefa ekki upp vonina um að á endanum færist lífið í eðlilegt horf.

Þetta kom fram í máli Fauci á rafrænni ráðstefnu á vegum Johns Hopkins-háskóla í Baltimore í dag, þangað sem hann var fenginn til þess að deila nýjustu sjónarmiðum um framgang veirunnar í Bandaríkjunum. 

Bóluefni ekki á leið til almennings á næstu mánuðum

Bandaríkin virðast vera að sigla inn í kórónuvetur eins og stærstu ríki Evrópu. Þar hafa fleiri en átta milljónir manna greinst, samanborið við 7,4 milljónir í Indlandi og 5,2 í Brasilíu. 1,4 milljónir hafa greinst í Rússlandi en þetta eru einu fjögur löndin þar sem fleiri en milljón hafa greinst.

Þrátt fyrir kórónuveirufaraldur kom fjöldi fólks saman í Flórída í …
Þrátt fyrir kórónuveirufaraldur kom fjöldi fólks saman í Flórída í dag, þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti steig á stokk. Það eru 18 dagar til kosninga. AFP

Bylgjan sem nú ríður yfir Bandaríkin virðist að sögn CNN ekki ætla að hlífa einstaka ríkjum eins og raunin varð í fyrstu bylgjunni, heldur er ástandið nú einsleitara um allt landið. Í norðausturhluta landsins, Washington D.C, New York og Connecticut, er faraldurinn til dæmis að taka sig upp á ný hefur að hafa verið í rólegum fasa frá því í vor.

Fauci sagði að það væru margir mánuðir þar til almenningur gæti búist við því að fá skammt af bóluefni, þegar það þá kæmi. Og jafnvel þá kynni að fara svo að bóluefnið hafi ekki nema 60, 70 eða 90 prósent virkni, sem myndi aftur leiða til þess að útbreiðsla faraldursins gæti haldið áfram.

Hann sagði að Bandaríkin væru ekki endilega á leiðinni inn í annað allsherjarútgöngubann, en að það þýddi ekki að það væru ekki erfiðar ákvarðanir framundan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert