Dæmdur morðingi, sem reyndi að stöðva vopnaðan mann á London-brúnni í nóvember í fyrra, mun að öllum líkindum losna tíu mánuðum fyrr úr fangelsi en gert hafði verið ráð fyrir.
Steven Gallant, sem er 42 ára gamall og afplánar dóm fyrir morð, átti að fá að sækja um reynslulausn 2022 en samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins mun hann geta það fyrr.
Gallant hefur lýst því í viðtölum hvernig hann tókst á við árásarmanninn, Usman Khan, vopnaður stól en Gallant var með heimild til að sækja atburð þennan dag í London ætlaðan föngum.
Hann afplánar 17 ára dóm fyrir að hafa myrt fyrrverandi slökkviliðsmann, Barrie Jackson, í Hull fyrir 15 árum.
Khan, sem stakk Saskiu Jones og Jack Merritt til bana, var síðar skotinn til bana af lögreglu. Þrír til viðbótar særðust í árásinni sem hófst í Fishmongers-salnum 29. nóvember.
Samkvæmt breskum fjölmiðlum er mjög líklegt að Gallant verði laus úr fangelsi fyrr en síðar vegna hetjudáðar sinnar á brúnni. Nefnd um lausn fanga mun úrskurða um það.