„Árás á lýðveldið“

Átján ára piltur ræðst á grunnskólakennara og afhöfðar fyrir það eitt að hafa sinnt skyldum sínum sem kennari, að ræða tjáningarfrelsið við nemendur sína. Vígamaðurinn hafði engin tengsl við kennarann og virðist það eitt að kennarinn, Samuel Paty, hafi sýnt nemendum sínum skopmynd af Múhameð spámanni hafa nægt til þess að ungi maðurinn fer vopnaður, ræðst á kennarann og drepur þar sem hann er á leið heim eftir kennslu á föstudaginn í úthverfi Parísar. 

Árásin er til rannsóknar og enn mörgum spurningum ósvarað en í morgun gerði franska lögreglan húsleit á tugum heimila einstaklinga sem eru grunaðir um að tengjast öfgasamtökum. Innanríkisráðherra Frakklands, Gérald Darmanin, segir að aðgerðir lögreglu eigi að koma þeim skilaboðum á framfæri til óvina lýðveldisins að þeir fái ekki stundarfrið af hálfu franska ríkisins. 

AFP

Í gær tóku tugþúsundir þátt í fundum út um allt Frakkland þar sem Samuels Paty var minnst og ekki síður – að heiðra stjórnarskrárbundinn rétt til tjáningar. Að sögn Darmanin hefur verið ráðist í yfir 80 rannsóknir á hatursorðræðu á netinu frá árásinni á föstudag. Verða allir þeir sem lýstu stuðningi við hryðjuverkið yfirheyrðir. 

Verið er að rannsaka fjölmargar síður og samtök sem tengjast íslam og þar á meðal Le Collectif Contre l’Islamophobie sem segjast vera mannúðarsamtök sem berjist gegn múslímahatri. Samtökin eru meðal annars í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar auk fleiri stofnana og samtaka.  

Árás sem minnir um margt á árás sem var gerð í janúar 2015 þar sem bræður réðust til atlögu og drápu tólf manns á ritstjórn ádeiluritsins Charlie Hebdo. Árás sem markaði upphaf fjölda vígaverka sem voru framin í nafni Ríkis íslams og hafa kostað yfir 240 manns lífið í Frakklandi. Ástæðan sem lá á bak við hryðjuverkið á ritstjórnarskrifstofunni var endurbirting blaðsins á skopteikningum af Múhameð spámanni. 

AFP

Árásarmaðurinn, Abdoulakh Anzorov, var skotinn til bana af lögreglu eftir árásina á föstudag. Hann var eins og áður sagði 18 ára gamall og hafði búið í Frakklandi ásamt fjölskyldu sinni frá sex ára aldri. Abdoulakh Anzorov var fæddur í Moskvu en átti ættir að rekja til Tsjetsjeníu. 

Að sögn helsta saksóknara Frakklands í hryðjuverkatengdum málum, Jean-François Ricard,  hafði árásarmaðurinn hangið fyrir utan skólann þar sem Paty kenndi sögu í einhvern tíma þennan sama dag og spurst fyrir um kennarann. 

Í síma árásarmannsins fundust skilaboð skrifuð nokkrum klukkutímum fyrir árásina þar sem hann lýsir undirbúningi árásarinnar. Skömmu áður en lögregla skaut hann til bana hafði Abdoulakh hlaðið mynd af Paty á Twitter.  

En það er ekki eins og Paty hafi sýnt skopmyndirnar í kennslustund fyrr um daginn heldur eru einhverjar vikur síðan það gerðist. Allt frá þeim tíma hefur verið undirliggjandi spenna meðal ákveðins hóps foreldra barna í skólanum, Collège du Bois-d’Aulne, í friðsælu millistéttarhverfi norður af París. Myndirnar voru tvær af spámanninum og voru birtar í Charlie Hebdo í tilefni af réttarhöldum sem nú standa yfir í París í tengslum við árásina á tímaritið fyrir 5 árum. 

Nokkrir foreldrar barna í skólanum sem eru múslímar voru ósáttir við að Paty sýndi nemendunum, sem eru flestir 13 ára, myndirnar. Þeir höfðu haft samband bæði við skólayfirvöld og lögreglu vegna myndbirtingarinnar. Myndskeið sem einn faðir birti á YouTube virðist síðan hafa orðið til þess að deilan fór langt út fyrir skólann – á ógnarhraða netsins. 

Að sögn Ricard hafa ekki fundist nein tengsl vígamannsins við skólann og hann virðist heldur ekki hafa blandað sér, svo vitað sé, inn í deilurnar um myndbirtinguna í kennslustund. Hann var heldur ekki á skrá hjá lögreglu í tengslum við hryðjuverkastarfsemi af nokkru tagi. 

Í síðasta mánuði réðst 25 ára gamall innflytjandi frá Pakistan á tvær manneskjur fyrir utan fyrrverandi skrifstofur Charlie Hebdo-tímaritsins. Skömmu áður hafði árásarmaðurinn horft á myndskeið frá heimalandinu þar sem birting skotmyndanna var gagnrýnd harðlega. Endurbirtingin hefur vakið margskonar tilfinningar meðal fólks. Sumir líta á hana sem sterk skilaboð um eitt mikilvægasta atriðið í stjórnarskrá landsins – tjáningarfrelsið – en aðrir hafa brugðist ókvæða við og telja hana óþarfa og heimskulega og aðeins til þess fallna að vekja deilur.

Árásin í síðasta mánuði var ekki banvæn og vakti miklu minni viðbrögð en sú á föstudaginn. Ekki síst vegna þess hversu hrottaleg árásin á föstudaginn var og minnir um margt á aftökur Ríkis íslams fyrir nokkrum árum. Myndskeið sem sýndu vestræna hjálparstarfsmenn og blaðamenn afhöfðaða fyrir framan myndavélarnar. 

Enda þustu helstu ráðamenn frönsku þjóðarinnar á vettvang glæpsins strax á föstudag, þar á meðal forseti Frakklands, Emmanuel Macron.

Jean-Michel Blanquer menntamálaráðherra segir að árásin hafi verið á lýðveldið og að Paty, sem var 47 ára gamall þegar hann var drepinn, yrði minnst sem hetju af franska ríkinu.

Í frönskum skólum er hefð fyrir því að halda nemendum upplýstum um réttindi og skyldur þeirra sem borgarar í stjórnarskrárbundnu lýðræði. Að þekkja sjálfsmynd þjóðar sem er stolt af framlagi sínu til nútímasamfélags – stjórnarskrá landsins. 

Kennari með eintak af Charlie Hebdo.
Kennari með eintak af Charlie Hebdo. AFP

Paty hafði ekki kennt í mörg ár við Collège du Bois-d’Aulne en hann var eins og áður sagði sögukennari við skólann. Fyrr í mánuðinum var tjáningarfrelsið á dagskrá sögutíma hjá 13 ára gömlum nemendum hans. Hann bað þá nemendur sem töldu skopmyndirnar vera móðgun við sig að líta undan eða fara út úr stofunni áður en myndirnar yrðu sýndar. 

Sett á samfélagsmiðla og allt varð vitlaust 

Cécile Ribet-Retel, formaður foreldrafélagsins, PEEP de Conflans, segir í samtali við New York Times að um 20 foreldrar hefðu haft samband og lýst óánægju með myndbirtinguna eða lýst stuðningi við kennarann. Foreldrar hafi átt fund með skólastjórnendum og samkomulag gert um að ná sáttum í málinu. 

„En síðar fóru upplýsingarnar á samfélagsmiðla, þær brenglaðar og oftúlkaðar,“ segir Ribet-Retel. „Og þetta fór úr böndunum.“  

Faðir 13 ára gamallar stúlku var mjög ósáttur og lá ekki á þeirri skoðun sinni. Hann átti fund með skólastjóranum og krafðist þess að kennarinn yrði rekinn, segir Ricard. Hann birti gagnrýnin og ógnandi myndskeið á YouTube, 7. og 12. október þar sem hann nafngreindi kennarann og skólann. Krafðist hann að gripið yrði til aðgerða. 

Laurent Brosse, bæjarstjórinn í Conflans-Sainte-Honorine, hverfinu þar sem skólinn er til húsa, segir að yfirvöld þar hafi varað lögreglu við ástandinu, það væri að vinda upp á sig og verða stjórnlaust eftir að faðirinn birti myndskeiðin.

„Við gerðum það sem við töldum mikilvægt að gera á þeim tíma,“ segir Brosse. „Við vitum að spurningin um tjáningarfrelsið vekur úlfúð meðal sumra í samfélaginu.“

En þrátt fyrir viðvaranir var ekki brugðist við af hálfu lögreglu. Myndskeiðunum var dreift um allt á samfélagsmiðlum, aðallega af þeim sem sögðu birtingu myndanna vera rasisma gagnvart múslímum.  

Myndskeiðin voru olía á eld þeirra sem eru ósáttir við aðgerðir Macron, sem hann segir sjálfur vera svar við aðskilnaðarstefnu íslamista. Samkvæmt þeim verður ekki gefið eftir þegar kemur að menntun og þeim gildum sem kennd eru í skólum landsins. Til að mynda verður börnum áfram gert að sækja sundtíma, sama hverrar trúar þau eru. 

AFP

Kennarar hafa ekki farið varhluta af togstreitu milli veraldarhyggju og íslams meðal ólíkra hópa samfélagsins og Paty, sem bæði núverandi og fyrrverandi nemendur hafi lýst sem fagmanni fram í fingurgóma, reyndi að fara milliveginn. Svo sem með því að bjóða nemendum að fara út úr stofunni áður en hann sýndi myndirnar. Hann beindi orðum sínum til þeirra nemenda sem eru múslímar en samkvæmt frönskum lögum er ólöglegt að spyrja fólk hverrar trúar það er. 

Eftir stendur spurningin – hvað eiga kennarar að gera? Að kenna samkvæmt námskrá eða forðast að fjalla um eldfim mál? 
Afstaða fjölmargra Frakka er ljós því fjölmargir tóku þátt í fundum um helgina þar sem kennarans var minnst og um leið stöðu kennara í landinu og stjórnarskrárbundinna réttinda frönsku þjóðarinnar. Fólk sýndi samhug sinn meðal annars með slagorðum eins og Je suis enseignant (Ég er kennari) og Je suis Samuel sem er bein vísun í slagorðið Je suis Charlie sem fór um heim allan í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í janúar 2015.
Guardian greinir frá því að faðirinn sem birti myndskeiðin á YouTube hafi haldið því fram að kennarinn hafi sýnt mynd af nöktum manni í kennslustund og haldið því fram að nakti maðurinn væri Múhameð spámaður. Faðirinn hvatti fleiri til að taka þátt í aðgerðum gegn kennaranum, manni sem faðirinn lýsti sem hrotta (voyou). Engu virtist skipta að dóttir mannsins hafði ekki einu sinni verið í skólanum þennan dag.
Fyrr í mánuðum fór Paty ásamt skólastjóranum á lögreglustöð í hverfinu til þess að leggja fram kæru vegna árása mannsins í hans garð. Paty sem var vanur því að ganga í gegnum skóglendi á leið heim úr skólanum hætti því af ótta við árásir og gekk þess í stað í gegnum þétta íbúðabyggð. Árásarmaðurinn lét það hins vegar ekki stöðva sig og framdi ódæðið um miðjan dag fyrir framan fullt af fólki. 
AFP

Macron varar við því að láta óttann ráða för og segir að íslamistar fái engan grið en meðal þeirra sem eru í haldi lögreglu er faðirinn sem birti myndskeiðin. Jafnframt eru fjórir úr fjölskyldu vígamannsins í haldi. 

Marine le Pen, formaður Þjóðfylkingarinnar, lagði blómsveig fyrir utan skólann þar sem Paty kenndi í dag og hún hefur krafist þess að lögum landsins verði breytt í baráttunni gegn hryðjuverkum. Nú þurfi að festa í lög að öllum útlendingum í landinu sem eru á lista yfir mögulega hryðjuverkamenn verði vísað á stundinni úr landi sem og fleirum úr hópi innflytjenda. 

Forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, Anne Hidalgo borgarstjóri Parísar og aðstoðarborgarstjóri …
Forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, Anne Hidalgo borgarstjóri Parísar og aðstoðarborgarstjóri Audrey Pulvar voru meðal þátttakenda á samstöðufundinum í gær. AFP

Innanríkisráðherra Frakklands sakar föðurinn sem setti myndskeiðin á YouTube og annan mann sem er þekktur íslamisti og er í haldi lögreglu, um að hafa sett fatwa-trú­ar­til­skip­un­ af stað gagnvart Paty en fatwa varð á sínum tíma ígildi laga um að Salman Rus­hdie væri rétt­dræp­ur. Ástæðan var bók­in Söngv­ar Satans en æðsti klerkur Írans sakaði rit­höf­und­inn um guðlast í bók­inni. 

Réttarhöld í tengslum við Charlie Hebdo-árásina hófust í síðasta mánuði og er gert ráð fyrir að þau muni standa þangað til í nóvember. Við upphaf þeirra í dag lýst forseti dómsins, Régis de Jorna, sorg vegna drápsins á föstudag. „Eina ástæðan fyrir því að hann dó er sú að hann kenndi nemendum sínum hvað tjáningar- og hugsunarfrelsið felur í sér og stendur fyrir.“ 

Frétt New York Times

Frétt Guardian

Grein á vef Spectactor

Frétt Al jazeera

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert