Þýsk stjórnvöld fjárfesta nú 500 milljónir evra eða því sem nemur um 81 milljarði íslenskra króna í að bæta loftræstikerfi í opinberum byggingum í viðleitni til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar.
Fjárveitingarnar munu fara í betrumbætur á loftræstingu opinberra skrifstofurýma, safna, leikhúsa, háskóla og skóla. Einkafyrirtæki eiga ekki rétt á slíkum fjárveitingum.
Veirur geta borist með lofti sem sýktir einstaklingar anda frá sér, sérstaklega þegar þeir hósta eða hnerra. Rannsóknir sýna að veirur geti lifað í smádropum í andrúmsloftinu í að minnsta kosti átta mínútur. Kaldara veðurfar býr til kjöraðstæður fyrir veirur til að dreifa sér þar sem margir eyða þá meiri tíma inni við en úti.
Helsta markmið þýskra stjórnvalda er að uppfæra núverandi loftræstikerfi, frekar en að kaupa ný kerfi þar sem hið síðarnefnda er dýrara.