Þýsk yfirvöld hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur tveimur stofnendum lögmannsstofunnar Mossack Fonseca sem öðlaðist heimsfrægð í hneykslismálinu tengdu Panamaskjölunum. Greint er frá þessu í þýskum fjölmiðlum í gærkvöldi.
Jürgen Mossack og Ramon Fonseca, sem eru grunaðir um skattsvik og að hafa veitt glæpamönnum aðstoð, verða handteknir ef þeir koma til ríkja Evrópusambandsins að því er segir í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung.
Tvímenningarnir eru með vegabréf útgefin í Panama og halda til í Karíbahafi en eyjar þar eru ekki með framsalssamninga við ríki eins og Þýskaland. Aftur á móti býr hluti fjölskyldu Mossack í Þýskalandi og vonast þýska lögreglan til þess að hann gefi sig fram við lögreglu til þess að geta samið um styttri dóm og til að komast hjá ákæru í Bandaríkjunum.
Upplýsingar um fjölmarga viðskiptavini Mossack Fonseca sýndu svart á hvítu hversu margir auðugir einstaklingar í heiminum nýta sér aflandsfélög til þess að fela fjármuni sína. Í Panama skjölunum má finna fólk úr ólíkum stéttum, allt frá kaupsýslumönnum til æðstu þjóðarleiðtoga, þekktra íþróttamanna og aðila sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.
Gögnunum var lekið til þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung sem fékk samtök rannsóknarblaðamanna (International Consortium of Investigative Journalists (ICIJ) í lið með sér og voru birtar fréttir upp úr skjölunum í helstu fjölmiðlum heims 3. apríl 2016.
Meðal þeirra sem koma fyrir í skjölunum eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þá var forsætisráðherra, David Cameron, sem þá var forsætisráðherra Bretlands, argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi, forseti Argentínu, Mauricio Macri, spænski kvikmyndaleikstjórinn Pedro Almodovar og leikarinn Jackie Chan. Auk þeirra eru yfir 140 þekktir stjórnmálamenn og aðrar opinberar persónur að finna í skjölunum. Misjafnt er hvaða áhrif birtingin hefur haft á viðkomandi, en eins og þekkt er hrökklaðist Sigmundur úr embætti forsætisráðherra vegna málsins og þá var Messi fundinn sekur um skattsvik á Spáni.
Ekki hefur verið greint frá því hverjum meint skattsvik tengjast sem nú er ákært fyrir.