Alþjóðleg handtökuskipun gefin út

Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama.
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama. AFP

Þýsk yfirvöld hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur tveimur stofnendum lögmannsstofunnar Mossack Fonseca sem öðlaðist heimsfrægð í hneyksl­is­mál­inu tengdu Pana­maskjöl­un­um. Greint er frá þessu í þýskum fjölmiðlum í gærkvöldi.

Jürgen Mossack og Ramon Fonseca, sem eru grunaðir um skattsvik og að hafa veitt glæpamönnum aðstoð, verða handteknir ef þeir koma til ríkja Evrópusambandsins að því er segir í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung.

Tvímenningarnir eru með vegabréf útgefin í Panama og halda til í Karíbahafi en eyjar þar eru ekki með framsalssamninga við ríki eins og Þýskaland. Aftur á móti býr hluti fjölskyldu Mossack í Þýskalandi og vonast þýska lögreglan til þess að hann gefi sig fram við lögreglu til þess að geta samið um styttri dóm og til að komast hjá ákæru í Bandaríkjunum.

Upp­lýs­ing­ar um fjöl­marga viðskipta­vini Mossack Fon­seca sýndu svart á hvítu hversu marg­ir auðugir ein­stak­ling­ar í heim­in­um nýta sér af­l­ands­fé­lög til þess að fela fjár­muni sína. Í Panama skjöl­un­um má finna fólk úr ólík­um stétt­um, allt frá kaup­sýslu­mönn­um til æðstu þjóðarleiðtoga, þekktra íþrótta­manna og aðila sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Gögn­un­um var lekið til þýska dag­blaðsins Süddeutsche Zeit­ung sem fékk sam­tök rann­sókn­ar­blaðamanna (In­ternati­onal Consorti­um of In­vestigati­ve Journa­lists (ICIJ) í lið með sér og voru birt­ar frétt­ir upp úr skjöl­un­um í helstu fjöl­miðlum heims 3. apríl 2016.

Meðal þeirra sem koma fyr­ir í skjöl­un­um eru Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, sem þá var for­sæt­is­ráðherra, Dav­id Ca­meron, sem þá var for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, arg­entínski knatt­spyrnumaður­inn Li­o­nel Messi, for­seti Arg­entínu, Mauricio Macri, spænski kvik­mynda­leik­stjór­inn Pedro Almodov­ar og leik­ar­inn Jackie Chan. Auk þeirra eru yfir 140 þekkt­ir stjórn­mála­menn og aðrar op­in­ber­ar per­són­ur að finna í skjöl­un­um. Misjafnt er hvaða áhrif birtingin hefur haft á viðkomandi, en eins og þekkt er hrökklaðist Sigmundur úr embætti forsætisráðherra vegna málsins og þá var Messi fundinn sekur um skattsvik á Spáni.

Ekki hefur verið greint frá því hverjum meint skattsvik tengjast sem nú er ákært fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert