Íranar og Rússar hafa reynt að hafa áhrif á almenningsálitið í Bandaríkjunum í tengslum við forsetakosningarnar þar í landi sem eru fyrirhugaðar í byrjun nóvember.
Þetta kom fram á blaðamannafundi bandarísku alríkislögreglunnar FBI nú fyrir skömmu.
Tölvupóstar hafa borist frá Íran þar sem kjósendum hefur verið hótað, auk þess sem Íranar hafa sent frá sér falsmyndbönd með upplýsingum um atkvæðaseðla.
Einnig kom fram að Rússar og Íranar hafi komist yfir upplýsingar um kjósendur.
„Þetta eru örvæntingarfullar tilraunir af hálfu örvæntingarfullra andstæðinga,“ fullyrti forstjóri FBI, Christopher Wray.
Bandarískur almenningur var jafnframt fullvissaður um að atkvæði hans væru örugg.