Gæti verið í vanda staddur vegna Borat 2

Rudy Giuliani heldur ræðu í ágúst síðastliðnum. Donald Trump, til …
Rudy Giuliani heldur ræðu í ágúst síðastliðnum. Donald Trump, til hægri, stendur fyrir aftan hann. AFP

Rudy Giuliani, lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, gæti verið í vanda staddur eftir að vandræðalegt atriði með honum birtist í framhaldi gamanmyndarinnar Borat.

Þetta kemur fram á vef The Guardian. Rétt er að vara við því að fréttin hefur að geyma spilliefni úr kvikmyndinni.

Fer með höndina ofan í buxurnar

Í myndinni, sem kemur út á föstudaginn, sést Guiliani, sem er fyrrverandi borgarstjóri New York, fara með höndina ofan í buxurnar sínar og snerta kynfæri sín, að því er virðist, á meðan hann liggur á hótelrúmi. Í atriðinu er einnig leikkona sem fer með hlutverk dóttur Borats, sem þykist vera sjónvarpsfréttamaður.

Eftir að leikkonan hefur tekið viðtal við Giuliani fyrir skáldaðan, íhaldssaman fréttaskýringaþátt, fara þau inn í svefnherbergi innan um faldar myndavélar til að fá sér drykk, eftir að hún hafði stungið upp á því.

Eftir að hún fjarlægir hljóðnemann hans sést þegar Giuliani, sem er 76 ára, liggur á rúminu, snertir skyrtuna sína og fer með höndina ofan í buxurnar sínar. Eftir það kemur Borat inn í herbergið og hrópar: „Hún er 15 ára. Hún er of gömul fyrir þig.“

Hringdi í lögregluna í sumar

The Guardian óskaði eftir svörum frá Giuliani vegna atriðsins en ekkert slíkt barst frá fulltrúum hans. Fyrst bárust fregnir af atvikinu 7. júlí þegar Giuliani hringdi í lögregluna í New York vegna þess að óvenjulega klæddur maður réðst inn á skrifstofu hans.

Í samtali við New York Post sagði hann að náunginn hafi verið í bleiku bikiníi og litið fáránlega út. Síðar sagðist hann hafa áttað sig á því að þetta var leikarinn Sacha Baron Cohen, maðurinn á bak við Borat.

Maður með grímu gengur framhjá kynningarplakati fyrir Borat 2.
Maður með grímu gengur framhjá kynningarplakati fyrir Borat 2. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert