Mosku lokað og 7 leiddir fyrir dómara

Frakkar votta sögukennara, sem var afhöfðaður af 18 ára ungmenni, virðingu sína í dag. Kennarinn, Samuel Paty, hafði sýnt skopmyndir af Múhameð spámanni í tengslum við kennslu um ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsið.

Sjö manns, þar á meðal tveir nemendur skólans, verða leiddir fyrir dómara í dag þar sem ákvörðun verður tekin um hvort þeir verði ákærðir í tengslum við morðið á Paty á föstudag.

Lögreglan hefur farið í tugi húsleita frá morðinu og ríkisstjórnin hefur fyrirskipað að mosku fyrir utan París verði lokað í hálft ár. Jafnframt er stefnt að því að leysa upp hóp sem styður Hamas-samtökin. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að þjóðin vilji sjá aðgerðir en yfirvöld hafa skorið upp herör gegn þeim sem eru grunaðir um að tilheyra öfgafullum samtökum íslamista í landinu. 

AFP

Flest samtök múslíma í Frakklandi hafa vottað fjölskyldu Paty samúð vegna vígsins og meðal þeirra sem hafa beðið frönsku þjóðina afsökunar er Hassen Chalghoumi, múslímaklerkur í Drancy, úthverfi Parísar. Líkt og flestir aðrir Frakkar eru múslímar slegnir yfir fréttunum af hrottalegu morðinu. 

Líkt og fram hefur komið á mbl.is varð Paty fyrir árásinni þegar hann var á heimleið eftir kennslu á föstudag í úthverfi Parísar. Vikurnar á undan var hann skotspónn hatursherferðar á netinu eftir að hafa sýnt skopteikningarnar í kennslustund. Sömu myndir og urðu til þess að hryðjuverkaárás var gerð á ritstjórnarskrifstofu ádeiluritsins Charlie Hebdo fyrir rúmum fimm árum. 

Flaggað í hálfa stöng við forsetahöllina í París í dag.
Flaggað í hálfa stöng við forsetahöllina í París í dag. AFP

Mynd af Paty og skilaboð þar sem ábyrgð er lýst á morðinu fundust í síma morðingjans, Abdullakh Anzorov, eftir að lögregla hafði skotið hann til bana. Stuttu áður hafði Anzorov birt á Twitter mynd af afhöfðuðu líki Paty. 

Í kvöld ætlar Macron að taka þátt í opinberri minningarathöfn ásamt fjölskyldu Paty og um 400 gestum í Sorbonne-háskólanum í París. Þar mun Macron veita Paty, að honum látnum, æðstu viðurkenningu franska ríkisins, Légion d'honneur.

Níu þeirra sextán sem voru handteknir í tengslum við morðið voru látnir lausir úr haldi í gærkvöldi. Meðal þeirra eru fjórir úr fjölskyldu Anzorov og þrír nemendur. 

Var í samskiptum við morðingjann á WhatsApp

Meðal þeirra sem verða leiddir fyrir dómara í dag er faðir stúlku við skólann en hann kynnti undir ófriðarbáli gegn kennaranum með ítrekuðum skilaboðum á samfélagsmiðlum og YouTube þar sem  hann hvatti til aðgerða gegn kennaranum. Faðirinn hafi verið í sambandi við Anzorov í gegnum samskiptaforritið WhatsApp dagana fyrir morðið. Dóttir mannsins var aftur á móti ekki í kennslustundinni þar sem myndirnar voru sýndar. 

AFP

Efni sem faðirinn birti á YouTube var dreift víða af mörgum, þar á meðal af mosku í Pantin, úthverfi norður af París. Moskunni verður lokað í dag og fær hún ekki að starfa í hálft ár fyrir að dreifa efni sem líklegt er til að vekja hatur og valda ofbeldi. 

Jafnframt verða samtökin Cheikh Yassine leyst upp fyrir beina aðild að morðinu. Stofnandi hópsins, öfgasinnaði íslamistinn, Abdelhakim Sefrioui, er meðal þeirra sem eru í haldi í tengslum við morðið.

Palestínsku Hamas-samtökin sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem kemur fram að þau tengist á engan hátt samtökunum né heldur Sefrioui. 

Franska ríkisstjórnin hefur jafnframt eyrnamerkt 50 önnu samtök sem tengjast öfgahreyfingum íslamista og verða þau einnig leyst upp. 

Jafnframt eru þrír vinir Anzorov í haldi lögreglu, þar á meðal einn sem er sakaður um að hafa ekið honum að skólanum og annar sem fór með Anzorov að kaupa hnífinn sem var notaður við morðið.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert