Frans páfi segir í nýrri heimildarmynd að samkynhneigð pör eigi rétt á því að vera í staðfestri samvist.
Í myndinni Francesco sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Róm í dag sagði argentínski páfinn að samkynhneigðir „eigi rétt á því að vera í fjölskyldu“.
„Þetta eru börn Guðs, þau eiga rétt á fjölskyldu,“ sagði hann í myndinni, sem Evgeny Afineevsky leikstýrði.
„Við þurfum að búa til lög um staðfesta samvist því þau eiga rétt á því að fá lagalega vernd. Ég styð það,“ bætti hann við.
Hingað til hefur páfinn lýst yfir andstöðu við hjónabönd samkynhneigðra og sagt að hjónaband skuli eingöngu vera á milli karls og konu. „Síðan hann tók við embættinu hefur páfinn talað af virðingu við samkynhneigða og verið á móti því að brotið sé gegn þeim,“ sagði Vanie de Luca, sérfræðingur í málefnum Vatíkansins.
„Það sem er nýtt núna er að hann er fylgjandi lögum um staðfesta samvist.“‘
Samkvæmt kenningum kirkjunnar er samkynhneigð ónáttúruleg og hefur kaþólska kirkjan barist gegn hjónaböndum samkynhneigðra.
Frans hefur þó frá upphafi páfatíðar sinnar hefur verið umburðarlyndari í garð samkynhneigðra en forverar hans og tönnlast á skilyrðislausri ást almættisins í garð barna sinna og sagt að „samkynhneigðar kenndir“ væru ekki synd.
Hann hefur þó einnig látið hafa eftir sér að ekkert pláss sé fyrir samkynhneigða innan prestastéttarinnar og sagst óttast að samkynhneigð sé „í tísku“.