Trump með bankareikning í Kína

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er með bankareikning í Kína og reyndi í mörg ár að koma á viðskiptum í landinu að því er segir í umfjöllun New York Times um málið.

Reikningurinn er skráður á Trump International Hotels Management og greiddi hann skatta í Kína á árunum 2013-2015. Að sögn talsmanns Trump var reikningurinn stofnaður til að kanna möguleika á vænlegum hótelsamningum í Asíu. Trump hefur harðlega gagnrýnt bandarísk fyrirtæki fyrir að eiga í viðskiptum við og í Kína. Hann stóð meðal annars á bak við viðskiptastríð landanna tveggja sem hefur kostað bandarísk og kínversk fyrirtæki háar fjárhæðir.

Eitt af helstu kosningamálum Trumps eru yfirburður Bandaríkjanna þar sem helsti óvinurinn er Kína og það ríki sem er talið mesta ógn við lýðræðið í heiminum.

Trump hefur undanfarna daga beint spjótum sínum að syni andstæðingsins, Hunter Biden, sem hann sakar um að hafa átt í viðskiptum í Úkraínu og Kína. 

Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram 3. nóvember og benda skoðanakannanir til þess að Biden fari með sigur af hólmi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert