Trump Bandaríkjaforseti gekk út úr viðtali við 60 Minutes á þriðjudagskvöld og birti síðan viðtalið í fullri lengd áður en það átti að birtast á sunnudag, þvert á samkomulag við sjónvarpsstöðina CBS News. Trump átti að loknu viðtali við Lesley Stahl að veita annað viðtal, þá við hlið Mike Pence forseta, en hann gekk út áður en það gat gerts eins og fyrr segir.
Trump sakaði Lesley Stahl, fréttakonu 60 Minutes, um að vera hlutdræg og spyrja aðeins erfiðra spurninga sem koma illa fyrir hann sjálfan: „Þú spyrð Biden ekki að svona erfiðum spurningum,“ sagði Trump við Stahl.
Trump tjáði sig á Twitter í dag um 60 Minutes og fór ekki í felur með skoðanir sínar frekar en fyrri daginn: „Sjáið hlutdrægnina, hatrið og ókurteisina af hálfu 60 Minutes og CBS News.“
Viðtalið umrædda átti að birtast á sunnudaginn næsta og höfðu starfsmenn Hvíta hússins fengið leyfi til þess að taka það upp til þess að eiga eigin upptökur af því. Núna hefur viðtalið hins vegar verið birt opinberlega.
Áður hafði 60 Minutes tekið upp viðtöl við Joe Biden, forsetaframbjóðanda demókrata, og Kamölu Harris varaforsetaefni sem birtast átti á sunnudag, í sama þætti og viðtalið við Trump og Pence.
CNN hefur eftir einum sem var á staðnum að Trump hafi gengið út úr viðtalinu af því hann taldi sig fullvissan um að 60 Minutes væri komið með nóg af efni til þess að birta þátt sinn. Þá er haft eftir öðrum að flestar spurningarnar hafi verið um kórónuveirufaraldurinn og viðbragð bandarískra stjórnvalda við honum.
Aðeins eru 12 dagar til kosninga í Bandaríkjunum og segja spekingar að sigur Biden sé orðinn nokkuð öruggur. Næstu kappræður milli Trump og Biden fara fram í nótt klukkan 01 að íslenskum tíma.