Hvað sögðu Biden og Trump í kappræðunum?

Frá kappræðunum í kvöld.
Frá kappræðunum í kvöld. AFP

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti og Joe Biden, for­setafram­bjóðandi demó­krata, eig­ast við í lokakapp­ræðum sín­um í nótt en inn­an við tvær vik­ur eru þangað til for­seta­kosn­ing­arn­ar í land­inu fara fram.

Flest­ir sér­fræðing­ar voru sam­mála um að síðustu kapp­ræður þeirra í sjón­varps­sal hafi verið á lágu plani. Mikið var um frammíköll og upp­nefni, sem varð til þess að skipu­leggj­end­ur ákváðu að slökkva á hljóðnem­um þeirra í nótt þegar við á í von um að halda hlut­un­um á siðleg­um nót­um.

Ert þú með ábendingu?

Sendu okkur myndir eða myndskeið úr þínu nærumhverfi á frettir@mbl.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu mbl.is

mbl.is

Við þökkum fyrir samfylgdina, umfjölluninni hefur lokið.

Kappræðunum er lokið

Þá er þessum síðustu kappræðum fyrir forsetakosningarnar lokið. Í lokaávörpum sínum tóku forsetaefnin nokkuð ólíka stefnu. Trump nýtti tækifærið til að beina spjótum sínum að Biden og sagði meðal annars að sá síðarnefndi muni hækka skatta og fleira. Biden aftur á móti sagði að persóna þjóðarinnar væri undir í kosningunum. Hann sagðist velja von fram yfir ótta og að hann yrði forseti allra, bæði þeirra sem kusu hann en ekki síður þeirra sem kusu Trump.

Hvað varðar loftlagsbreytingar segir Trump að drykkjarvatn í Bandaríkjunum sé kristaltært og að kolefnislosun sé í lágmarki í Bandaríkjunum. Hann segir að Kína, Indland og Rússland séu „skítug“ lönd. Hann muni ekki fórna atvinnutækifærum og fyrirtækjum til að taka þátt í Parísarsamkomulaginu. „Við höfum unnið frábært starf fyrir umhverfið. Við höfum hreinasta vatnið, hreinasta loftið,“ sagði Trump. Biden sagði þá að tíminn til að grípa til aðgerða og snúa við loftlagsbreytingum sé naumur. Hann segir Trump hafa sett Bandaríkjamenn í afar slæma stöðu með því að snúa við löggjöf Obama sem snýr að umhverfis- og loftlagsáhrifum. Biden sagði að í hans áætlunum er varða loftlagsbreytingar felist ýmis atvinnutækifæri fyrir Bandaríkjamenn ásamt því að hægt sé að tryggja framtíð komandi kynslóða. Trump hafði þá að Biden viti ekkert um loftslagið, hans áætlanir muni einungis leiða til þess að milljónir missi störf sín.

Biden og Trump halda áfram að ráðast á hvorn annan. Hvað varðar kynþáttafordóma í Bandaríkjunum segir Trump að engin, nema mögulega Abraham Lincoln, hafi gert meira fyrir svarta Bandaríkjamenn en hann. Hann segir Biden ekkert hafa gert fyrir svarta Bandaríkjamenn, hvorki sem þingmaður né sem varaforseti. Biden beindi þá orðum sínum til áhorfenda og sagði: „Þið vitið hver ég er. Þið vitið hver hann er,“ og sagði kjósendum að taka ákvörðun út frá persónu þeirra.

Hvað varðar landamæraeftirlit og stefnumál í innflytjendamálum kom Biden hart niður á Trump varðandi aðskilnað foreldra og barna við landamærin. Trump sagði að þau börn sem ekki hafa verið sameinuð við foreldra sína að nýju fái „góða umönnun“. Trump sagði þá að Biden hafi verið varaforseti í 8 ár og aldrei gert neitt í málefnum innflytjenda. Biden sagði þá að hann hafi gert mistök, hann og Obama hafi brugðist of seint við. Það muni ekki gerast verði hann kjörinn forseti.

Trump segir að Biden sé frjálslyndari en Bernie Sanders og að áætlanir hans utan um heilbrigðistryggingar sé ekki annað en ríkisvæðing heilbrigðisþjónustu. „Hann gleymir hverjum hann er í framboði á móti. Þú ert í framboði á móti Joe Biden. Ég sigraði forkosningarnar af því ég var ósammála hinum frambjóðendunum,“ sagði Biden þá. Trump brást við með því að segja að verðbréfamarkaðurinn muni hrynja nái Biden kjöri. Biden svaraði þá að venjulegt fólk lifi ekki af verðbréfamarkaðinum.

Hvað varðar heilbrigsðistryggingar segist Trump ætla að leggja fram „frábæra áætlun“ sem geti komið í staðinn fyrir Obamacare. Biden sagði þá að Trump hafi talað um slíka áætlun í langan tíma en almenningur sé enn engu nær um hvað slík áætlun eigi að snúast um. Biden segir mikilvægt að Bandaríkjamann geti nýtt sér opinberar heilbrigðistryggingar kjósi þeir það. Það eigi að vera undir hverjum og einum komið hvort að borgarar velji að nýta sér opinberar heilbrigðistryggingar. Trump sagði þá að Biden hafi verið í Bandaríkjaþingi í fleiri áratugi en aldrei lagt fram áætlun utan um heilbrigðistryggingar áður.

Nú hefur umræðan færst að málefnum Norður-Kóreu. Biden segist ekki ætla hitta Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, án fyrirfram ákveðinna skilmála. Trump sagði þá að Obama og Biden hafi reynt að hitta hann, en að Kim Jong-un hafi einfaldlega ekki líkað vel við Obama.

Trump segist hafa greitt atvinnurekendum í landbúnaði milljarða dollara sem hann hafi fengið frá Kína. Biden sagði þá að Kína hafi ekkert greitt, umrætt fé hafi komið frá skattgreiðendum. Biden sagði þá að aðalmálið væri hvort að hinn hefðbundi Bandaríkjamaður hefði það betra í dag en fyrir fjórum árum. „Týpískur stjórnmálamaður, ég er ekki týpískur stjórnmálamaður,“ sagði Trump þá og sakaði Biden um að færa umræðuna frá Kína.

Biden og Trump hafa skipst á að saka hvorn annan um að hafa átt í vafasömum viðskiptum erlendis, meðal annars í Kína. Trump hefur meðal annars talað um viðskipti Hunter Biden í Úkraínu og víðar sem hann segir hafa verið „hræðileg“. Biden sagði þá að viðskipti Hunter í Úkraínu hafi verið rannsökuð og ekkert athugavert hafi verið við þau.

Trump segist ekki hafa tekið við neinum fjárgreiðslum frá Rússlandi. Þvert á móti hafi Biden fengið 3,5 milljónir dollara greiddar frá rússneskum áhrifamönnum. „Það hefur engin verið harðari gagnvart Rússlandi en Donald Trump.“ Biden sagðist þá aldrei hafa tekið við greiðslu frá erlendum aðilum. „Ég hef gefið út allar mínar skattaskýrslur. Þú hefur ekki gefið neina. Hvað ertu að fela,“ spurði Biden forsetinn þá. „Birtu skattaskýrslurnar þínar eða hættu að tala um spillingu.“

Þá færum við okkur úr umræðum um Covid-19 í þjóðaröryggi. Greint hefur verið frá því að bæði Íran og Rússland hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar. Biden sagði að þær þjóðir sem ógni fullveldi Bandaríkjanna þurfi að svara fyrir það verði hann kjörinn forseti. „Ég skil ekki af hverju þessi forseti vill ekki takast á við Pútín þegar Pútín greiðir leigumorðingjum fyrir að myrða bandaríska hermenn.“

„Ég vil loka á veiruna, ekki loka landinu“ sagði Biden, spurður út í hvernig hann hefði brugðist við faraldrinum. Trump sagði þá að Biden tali ekki um annað en lokanir og útgöngubann. Trump segist vilja opna skóla, smithætta sé lítil innan skóla og ekki sé hægt að halda landinu í lamasessi. „Lausnin getur ekki verið verri en vandamálið,“ sagði Trump. Biden sagði þá að fyrirtæki og einstaklingar verði að geta opnað starfsemi sína og farið út í samfélagið á nýju á öruggan hátt. Trump hafi ekki tryggt það.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert