Maxwell neitar að hafa séð nokkuð óviðeigandi

Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein á samsettri mynd.
Ghislaine Maxwell og Jeffrey Epstein á samsettri mynd. AFP

Ghislaine Maxwell, sem er sökuð um mansal, neitaði því ítrekað að hafa útvegað fyrrverandi kærasta sínum, barnaníðingnum Jeffrey Epstein, stúlkur sem voru undir lögaldri. Þetta kemur fram í dómsskjölum frá árinu 2016 sem hún barðist gegn því að yrðu gerð opinber.

Vitnisburður Maxwell er hluti af ákærum á hendur henni um meinsæri. Hún er sökuð um að hafa útvegað Epstein stúlkur, allt niður í 14 ára gamlar, en hann framdi sjálfvíg í fangelsi á síðasta ári.

Maxwell, sem er dóttir fjölmiðlamógúlsins sáluga Roberts Maxwell, neitar því að hafa stundað mansal og lokkað til sín tugi ólögráða stúlkna. Hún á að koma fyrir dóm í New York næsta sumar.

Saksóknarar segja einnig að Maxwell, sem er 58 ára, hafi logið í vitnisburðinum sem hún veitti árið 2016 í máli sem tengist ásökunum Virginiu Giuffre, sem höfðaði mál gegn henni.

AFP

Sagðist aldrei hafa útvegað stúlkur

Lögmenn Maxwell börðust í marga mánuði fyrir því að koma í veg fyrir að 456 blaðsíðna dómsskjölin yrðu gerð opinber og báru fyrir sig að í þeim væru viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Fyrr í þessari viku fyrirskipaði áfrýjunardómstóll aftur á móti þau skyldu gerð opinber.

„Stoppið núna. Ég útvegaði aldrei stúlkur,“ sagði Maxwell í vitnisburði sínum. Annars staðar sagði hún: „Ég hef aldrei stundað kynlíf með neinum án samþykkis, ekki nokkru sinni og ekki með neinum.“

„Ég varð aldrei nokkru vitni að óviðeigandi samskiptum Jeffrey við stúlkur undir lögaldri,“ sagði hún einnig, að sögn BBC. 

Maxwell, sem átti í ástarsambandi með Epstein á tíunda áratugnum, sagði að starf hennar hafi falist í því að ráða fólk til starfa í fjölmörgum hús Epstein, m.a. til að starfa við sundlaugar, garðyrkjufólk, kokka, ráðskonur, þjóna og bílstjóra. Hún sagðist aðeins hafa ráðið fullorðið fólk. Aldurinn hafi alltaf verið við hæfi. 

Á yfir höfði sér 35 ára fangelsi

Hún sagðist aldrei hafa séð Epstein stunda kynlíf með stúlkum undir lögaldri. „Ég veit ekki um hvað þú ert að tala,“ svaraði hún þegar hún var spurð hvort Epstein hafi stundað pýramída-starfsemi til að útvega ólögráða stúlkur til að veita honum nudd og stunda með honum kynlíf.

Maxwell á yfir höfði sér allt að 35 ára fangelsi verði hún fundin sek um meinta glæpi frá árunum 1994 til 1997. Hún er einnig sökuð um að hafa stundum tekið þátt í því að misnota stúlkurnar.

Virginia Giuffre segist hafa stundað kynlíf með Andrési Bretaprins þegar hún var 17 ára eftir að hafa verið fengin til þess af Epstein. Prinsinn hefur neitað þessu staðfastlega.

Fjöldi nafna var tekinn út úr vitnisburðinum sem var birtur opinberlega en þar sagði Maxwell að Giuffre væri „algjör lygari“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert