Vara við gulu ryki

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa beðið þegna landsins um að halda sig inni þar sem hætta sé á að gult ryk frá Kína geti borið kórónuveiruna með sér. Um er að ræða árstíðarbundinn sandstorm og ekki er vitað um nein tengsl hans og Covid-19.

Íbúar höfuðborgarinnar, Pyongyang, virðast aftur á móti fylgja ráðleggingum yfirvalda í hvívetna því vart sást sála á ferli í gær. Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að engin kórónuveirusmit séu virk í landinu en frá því janúar hefur neyðarstig almannavarna verið í gildi. Mjög harðar reglur gilda á landamærum og ferðalögum innanlands. 

Norður-Kórea er aftur á móti ekki eina landið sem varar við slíkum tengslum að sögn upplýsingaóreiðu-teymis BBC. Teymið bendir á að yfirvöld í Túrkmenistan segi ástæðuna fyrir því að íbúar landsins eigi að nota grímur sé ryk sem geti borið með sér veiruna og neita því að með þessu sé verið að hylma yfir að farsótt geisi í landinu. 

Sérstök frétt var birt í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu á miðvikudag um rykmökkinn og var það veðurfréttakona sem flutti fréttina. Varaði hún fólk við gulu rykskýi sem búast mætti við daginn eftir, fimmtudag, og að allar framkvæmdir yrðu bannaðar utanhúss í landinu vegna þessa. 

Gula rykið er sandur frá eyðimörkum Mongólíu og Kína sem blæs yfir til Norður- og Suður-Kóreu á ákveðnum tímum árs. Með sandinum berst eitrað ryk sem hefur árum saman verið varað við af heilsufarsástæðum í löndunum tveimur. 

Yfirvöld í Suður-Kóreu blása aftur á móti á skýringar Norður-Kóreu og segja engin tengsl milli ryksins og Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert