Einn helsti aðstoðarmaður Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, greindist með Covid-19 í gær að sögn talsmanns varaforsetaembættisins.
Marc Short, sem er skrifstofustjóri embætti varaforseta, er kominn í einangrun og að sögn talsmanns Pence, Devins O'Malleys, aðstoðar Short nú smitrakningarteymið við að finna út hverja hann hefur verið í samskiptum við undanfarið. Pence-hjónin, Mike og Karen, fóru bæði í skimun í gær og eru hvorugt með smit. Pence mun halda óbreyttri dagskrá í kosningaundirbúningnum en aðeins átta dagar eru til forsetakosninganna.
Nýjum smitum hefur fjölgað hratt í Bandaríkjunum undanfarna daga og voru í gær staðfest 89 þúsund ný smit. Hópur fólks sem tengist Hvíta húsinu hefur fengið Covid-19, þar á meðal Donald Trump forseti.