Evrópuþingið hafnaði á föstudag tillögu þess efnis að bannað yrði að markaðssetja grænmetisrétti með orðum sem upphaflega vísa til kjötrétta.
Tillagan naut eindregins stuðnings hagsmunasamtaka kjötbænda, en hefði hún verið samþykkt hefðu vöruheiti á borð við „grænmetisborgari“ og „vegan-pylsur“ verið bönnuð innan sambandsins.
Sala á grænmetisútgáfum af þekktum kjötréttum hefur aukist hratt í Evrópu sem annars staðar á liðnum árum en í umsögn Copa-Cogeca, stærstu hagsmunasamtaka bænda í Evrópu, sagði að fyrrnefndar merkingar væru misvísandi þar sem þær vektu upp hugrenningartengsl við kjötvörur. Þá voru framleiðendur slíkra vara sakaðir um menningarnám (e. cultural hijacking).
Meðal hagsmunahópa sem lögðust gegn banninu voru Grænfriðungar og Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn (WWF) sem vöruðu við því að þrengt væri að markaðssetningu umræddra rétta á sama tíma og mikilvægt væri að draga úr kjötneyslu til verndar umhverfinu.
Þá voru stórfyrirtæki í matvælageiranum einnig andsnúin tillögunni, þeirra á meðal hið svissneska Nestlé, sem framleiðir fjöldann allan af vörum með og án kjöts.
Evrópsku neytendasamtökin þökkuðu Evrópuþingmönnum fyrir að hafa sýnt „heilbrigða skynsemi“ að atkvæðagreiðslu lokinni. „Vörur á borð við soja-steik og baunapylsur eru á engan hátt ruglandi fyrir neytendur svo framarlega sem þær eru merktar á skýran hátt sem grænmetisréttur eða vegan,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum. „Hugtök á borð við borgara eða steik auðvelda neytendum einfaldlega að átta sig á hvernig hægt er að nota matvöruna í máltíð.“
Hafa samtökin nokkuð til síns máls enda leitun að matvælaframleiðendum sem gera meira úr því að varan þeirra innihaldi ekki kjöt heldur en einmitt framleiðendur kjötlíkis. Ættu allir sem hafa á annað borð séð umbúðir slíkra vara að vera því sammála.
Notkun orðanna mjólk, smjör og ostur um vörur sem innihalda ekki dýramjólk er þegar bönnuð í Evrópusambandinu frá árinu 2013 og ekki verður hróflað við því. Af þeim sökum er jurtamjólk innan ESB markaðssett sem jurtadrykkur. Örfáar undantekningar eru þó frá banninu svo sem fyrir hnetusmjör, kókoshnetumjólk og möndlumjólk, auk þess sem selja má vöru sem ís þótt hún innihaldi enga dýramjólk.