Leiðtogi bandarískra samtaka, sem hefur verið líkt við sértrúarsöfnuð, var í dag dæmdur í 120 ára fangelsi fyrir fjárglæfrastarfsemi, kynlífsþrælkun og aðra glæpi í starfi sínu sem leiðtogi samtakanna Nxivm.
Samtökin Nxivm voru stofnuð árið 2003 í New York sem sjálfshjálparsamtök. Leiðtogi þeirra, Keith Raniere, sem er 60 ára að aldri, var fundinn sekur um að hafa neytt fjölda kvenna til að hafa við sig kynmök þar sem hann væri leiðtogi lífs þeirra.
Jafnframt voru þær brennimerktar með upphafsstöfunum í nafni hans þegar þær gengu til liðs við samtökin.
Konurnar reiddu fram mörg þúsund dali af hendi til að taka þátt í nokkurra daga námskeiði hjá Nxivm. Þar voru þær síðan misnotaðar, kallaðar þrælar og neyddar til ýmissa athafna með Raniere.
Reniere var sakfelldur fyrir í fyrra fyrir alla sjö ákæruliði gegn honum en þeirra á meðal ákæra fyrir að hafa misnotað 15 ára stúlku kynferðislega.
Nxivm-samtökin hafa vakið mikla athygli allt frá stofnun enda margir þekktir einstaklingar sem hafa stutt samtökin. Þar á meðal Smallville-leikkonan Allison Mack og hafa útibú samtakanna verið stofnuð víða um Bandaríkin.