Aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins verða hertar frá og með mánudeginum í Þýskalandi og mega ekki fleiri en tíu koma saman. Skólum og búðum verður áfram haldið opnum en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvatti íbúa landsins til að gera allt sitt til að stöðva útbreiðslu veirunnar.
Samkvæmt frétt Guardian munu hertar aðgerðir gilda um allt landið, taka gildi mánudaginn 2. nóvember og gilda út mánuðinn.
Merkel sagði að fjöldi sjúklinga á gjörgæsludeildum hefði tvöfaldast undanfarna tíu daga og að kerfið færi að þolmörkum fljótlega með sama áframhaldi.
Hún bætti því við að ekki væri hægt að rekja 75% smita síðustu daga.
Þjóðverjum verður gert að hitta ekki fólk frá fleiri en tveimur heimilum (sínu eigin meðtöldu), kvikmyndahúsum, leikhúsum og fleiri stöðum verður lokað sem og börum og veitingastöðum en þeim þó leyft að afgreiða mat sem fólk getur tekið með sér. Þá verður nudd- og húðflúrsstofum lokað en hárgreiðslustofum leyft að hafa opið áfram.