Eystein Østmoe, fornleifafræðingi við Norska vísinda- og tækniháskólann í Þrándheimi (NTNU), og hans fólki var tekið að leiðast þófið nokkuð við minjaleit sína á Hestnes í Þrændalögum eftir vikur af ákaflega hversdagslegum fundum, svo sem stólpaförum eftir byggingar og eldstæðum.
Forvitnin var því eðlilega vakin nú fyrr í mánuðinum þegar við uppgröft blasti við ferhyrndur reitur með áberandi dökkum og fituríkum jarðvegi, skýrum teiknum um að þar lægi manneskja grafin.
Þetta kom hópnum frá NTNU nokkuð spánskt fyrir sjónir þar sem Hestnes er ekki þekktur fundarstaður kumla. Ekki dró það úr undruninni þegar tekið var að grafa og í ljós komu yfir eitt þúsund ára gamlar leifar af grafreit eða grafhýsi úr timbri, því sem norskir fornleifafræðingar nefna á sínu fagmáli kammergrav.
Slíkar grafir eru mjög sjaldgæfar í þessum hluta Noregs, útskýrir Raymond Sauvage, fornleifafræðingur og stjórnandi rannsóknarinnar á Hestnes, í samtali við Gemini.no, rannsóknavefrit NTNU. Um sé að ræða grafir sem ætlaðar voru höfðingjum og fyrirmennum, þeim allra æðstu í sínu samfélagi.
Í gröfinni reyndust jarðneskar leifar konu auk fjölda smáperlna, miniatyrperler á norsku, og annarra fágætra gripa. Perlur þessarar gerðar hafa aðeins fundist á tveimur öðrum stöðum í Noregi og velta fornleifafræðingar NTNU því nú fyrir sér hver konan í gröfinni hafi verið en allt bendi til að í Þrændalögum hafi hún verið stödd fjarri sínum heimaslóðum.
Greinina má lesa í heild sinni í vefútgáfu Morgunblaðsins