„Tölurnar eru sláandi“

Tæp vika er þangað til Bandaríkjamenn kjósa sér forseta en nú þegar hafa tæplega 70 milljónir greitt atkvæði. Það er rúmlega helmingur allra þeirra sem greiddu atkvæði í síðustu forsetakosningum í landinu. 

Þetta kemur fram í frétt New York Times og er þar vísað í tölur frá United States Elections Project. 

Kórónuveirufaraldurinn, ótti við tafir á póstdreifingu og ástríða forsetaframbjóðendanna beggja virðist hafa áhrif á áhuga fólks á að taka þátt í kosningunum og greiða atkvæði, segir í frétt NYT. 

Síðdegis í gær, hér er miðað við tímann á austurströnd Bandaríkjanna, höfðu yfir 69,5 milljónir þegar sent atkvæði sitt með pósti eða mætt á kjörstað. Það eru 50,4% af heildarfjölda atkvæða sem greidd voru í forsetakosningunum árið 2016. 

Þátttakan er jafnvel enn meiri í þeim ríkjum þar sem óvissan er meiri og líklegt að mjótt verði á munum milli frambjóðendanna, Donalds Trumps og Joes Bidens. Í Texas hafa 87% af þeim fjölda sem greiddi atkvæði árið 2016 greitt atkvæði, í Flórída eru tveir af hverjum þremur búnir að greiða atkvæði. Í Norður-Karólínu er kjörsóknin 72% miðað við árið 2016 og í Georgíu er hún 71%. Hér er í öllum  tilvikum átt við hlutfall af þeim sem greiddu atkvæði í forsetakosningunum 2016 í þessum ríkjum. 

„Tölurnar eru sláandi,“ segir Michael P. McDonald, prófessor í stjórnmálafræði við Flórída-háskóla, en hann annast söfnun upplýsinga fyrir kosningaverkefnið. 

Frétt New York Times í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert