Mitt Romney, repúblikani og öldungadeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi, telur að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, eigi „frábæra möguleika“ á því ná endurkjöri. Ummælin lét hann falla þegar hann ræddi við fréttamenn. Hann hafði fyrir um mánuði sagt að líkur Trumps væru í kringum 40%.
Ummælin komu mörgum á óvart enda hefur Romney verið mjög gagnrýninn á störf forsetans allt frá því að Trump bauð honum ekki stöðu utanríkisráðherra. Þá hefur Romney ekki viljað gefa upp hvern hann hyggst kjósa í forsetakosningunum vestanhafs.
Að því er fram kemur í könnunum fjölmiðla vestanhafs bendir allt til þess að Joe Biden muni sigra Trump í kosningunum. Hins vegar halda repúblikanar því fram að kannanirnar nú séu rangar líkt og árið 2016 þegar Trump náði kjöri. Benda þeir á að umræddir fjölmiðlar hafi hagsmuni af því að Biden nái kjöri.