Nemendur í tékkneskum framhaldsskóla með áherslu á heilbrigðisvísindi hafa verið ráðnir í stöðu aðstoðarmanna hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsi í borginni Kyjov. Hlaupa þeir í skarðið fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem er óvinnufært eftir að hafa sjálft greinst með kórónuveiruna.
Þetta kemur fram í umfjöllun CNN.
„Ástandið er mjög alvarlegt. Tékkneska heilbrigðiskerfið hefur aldrei staðið frammi fyrir viðlíka áskorun áður,“ segir Milan Kubek, forseti tékkneska læknasambandsins. „Á hverjum degi veikjast um 1.000 heilbrigðisstarfsmenn. Í landi með 10 milljónir íbúa er það mjög alvarleg tala.“ Kubeck telur að flestir heilbrigðisstarfsmenn veikist ekki í vinnunni heldur heima hjá sér og á götum úti.
Ein þeirra sem komin er til starfa er Barbara Sásová, átján ára gömul. „Við hjálpum til við hreinlæti, stundum sinnum við blóðprufum og fleiru,“ segir Sásová. Eftir að skólanum var lokað hafa hún og samnemendur hennar verið ráðnir til starfa á spítalanum, og eru þeir yngstu sextán ára gamlir. „Ég lít svo á að það sé skylda okkar enda erum við heilbrigðisstarfsmenn framtíðarinnar,“ segir hún.
Nýgengi kórónuveirunnar (smit síðustu tvær vikur á hverja 100.000 íbúa) í Tékklandi er með því allra hæsta sem gerist í heiminum, eða 1512. Til samanburðar er hlutfallið 247 á Íslandi. „Heilbrigðiskerfið í Tékklandi er þegar hrunið vegna þess að spítalar geta ekki, með örfáum undantekningum, sinnt öðrum sjúklingum en Covid-sjúklingum,“ segir Jiri Vyhnal, forstjóri bráðamóttöku á spítalanum í Kyjov.