Hryðjuverkasamtökin Boko Haram myrtu í dag tólf manns og rændu sjö í árás á þorp í norðurhluta Nígeríu. Þorpið sem um ræðir er nálægt bænum Chibok sem komst í heimsfréttirnar árið 2014 sem vettvangur mannráns Boko Haram á 276 skólastúlkum.
Hryðjuverkamenn keyrðu inn í þorpið á sex jeppum, skutu þorpsbúa og kveiktu í húsum. Lítil borgarahersveit frá Chibok var send út á tveimur bílum til að verja þorpið, en hún var ofurliði borin.
Liðsmenn Boko Haram tóku sjö manns í gíslingu og brenndu 70 hús eftir að hafa rænt matarbirgðum þorpsins að sögn Aybua Alamson, íbúa á svæðinu.
„Hryðjuverkamennirnir tóku þrjár konur og fjögur börn þeirra með sér í árásinni,“ sagði hann samkvæmt AFP-fréttaveitunni.
Hermenn hafa verið til taks í Chibok eftir að skólastúlkunum var rænt fyrir sex árum, en 57 þeirra sluppu stuttu eftir að þær voru teknar og 107 þeirra var annaðhvort bjargað eða sleppt eftir samkomulag við Boko Haram. Um 112 þeirra eru þó enn í haldi hryðjuverkasamtakanna.