Stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafa truflað umferð undanfarna daga og reynt að koma í veg fyrir að starfsfólk framboðs Joes Bidens komist leiðar sinnar. Alríkislögreglan rannsakar atvik í Texas á föstudag á meðan Trump hrósar sínu fólki í Texas.
Stuðningsmenn Trumps umkringdu rútu framboðs Bidens í Texas á föstudag og að sögn Bidens var reynt að þvinga þau út af. FBI greindi frá því í gær að rannsókn væri hafin á atvikinu. Trump ver stuðningsmenn sína aftur á móti á Twitter og segist ekki sjá að þeir hafi gert neitt rangt. Það væri nær að FBI myndi rannsaka hryðjuverkamennina, anarkistana og andstæðinga fasima (anti-fascists), Antifa, sem fari um allt og kveiki í borgum þar sem demókratar eru við völd og meiði fólkið.
In my opinion, these patriots did nothing wrong. Instead, the FBI & Justice should be investigating the terrorists, anarchists, and agitators of ANTIFA, who run around burning down our Democrat run cities and hurting our people! https://t.co/of6Lna3HMU
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 2, 2020
Í gær stöðvuðu stuðningsmenn Trumps umferð á tveimur hraðbrautum í ríkjunum New York og New Jersey.
Talsmaður Trumps, Jason Miller, var spurður af fjölmiðlum út í atvikin í New York og New Jersey í gær en hann segist hafa meiri áhyggjur af því að fyrirtæki í miðborg Washington þurfi að byrgja glugga vegna ofbeldisfullra stuðningsmanna Bidens sem gengju um ruplandi og rænandi.
Í Texas á föstudag var rúta kosningaherferðar Bidens-Harris á leið frá San Antonio til Austin umkringd ökutækjum sem voru merkt fánum og merkjum til stuðnings Trump og varð þetta til þess að aflýsa þurfti tveimur fundum þar sem rútan fékk ekki að halda áfram og því ekki hægt að halda fundina.
Í gær lokuðu stuðningsmenn Trumps fyrir umferð um helstu hraðbrautir New York og á myndskeiðum má sjá ökutæki merkt forseta Bandaríkjanna raðað upp þannig að ekki er hægt að aka þar um.