Í það minnsta einn er látinn og fimmtán særðir, þar af sjö alvarlega, eftir skotárás í miðborg Vínarborgar í Austurríki. Kanslari Austurríkis segir að árásin sé hryðjuverk og Austurríkismenn muni aldrei láta slíkt kúga sig.
Hryðjuverkaárásin var gerð í nágrenni bænahúss gyðinga í borginni, en í yfirlýsingu frá lögreglu segir að árásarmennirnir hafi verið nokkrir og þeir hafi hafið skothríð á sex stöðum. Lögregla hefur skotið einn þeirra til bana. Þá greinir Reuters frá því að einn þeirra hafi verið handtekinn.
„Þetta hljómaði eins og flugeldar, svo áttuðum við okkur á því að þetta væru skot,“ hefur fréttamiðillinn ORF eftir vitni að árásinni. Þá sagði annað vitni að að árásarmaður hafi „skotið út um allt úr sjálfvirku vopni.“
Lögregla hefur beðið borgarbúa um að halda sig fjarri öllum opinberum stöðum og almenningssamgöngum. Þá hafa íbúar verið beðnir um að birta ekki fleiri myndir af vettvangi.
Vegna kórónuveirufaraldursins tekur útgöngubann gildi í Austurríki á miðnætti, en af þeim sökum mun margt hafa verið um manninn í miðborg Vínar í kvöld þar sem fólk ætlaði að njóta mannlífsins í síðasta sinn áður en bannið skylli á.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, heitir því að lögregla muni bregðast harkalega við þessari hryllilegu hryðjuverkaárás. „Við göngum í gegnum erfiða tíma í lýðveldinu okkar. Ég vil þakka viðbragðaðilum sem hætta lífi sini fyrir öryggi okkar, einkum í dag,“ segir Kurz í færslu á Twitter.
„Hugur allra landsmanna er hjá fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra og ég votta þeim mína dýpstu samúð,“ segir Kurz. Þá þakkar hann leiðtogum Evrópusambandsinns og annarra bandamanna fyrir sýnda samúð og samtöðu.
Leiðtogar Evrópuríkja hafa margir hverjir þegar sent samúðarkveðjur til austurrísku þjóðarinnar. Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir í færslu á Twitter, sem hann birtir á þýsku, að Frakkar deili „áfalli og sorg“ Austurríkismanna. „Á eftir Frakklandi er það vinaþjóð sem verður fyrir árás.“ Sagði hann að óvinir Evrópu þyrftu að vita hverja þeir ættu í stríði við. „Við munum ekki gefa eftir.“
Fréttin var uppfærð klukkan 22:43.