Hyggst lýsa yfir sigri og saka demókrata um svindl

Bandaríkjaforseti á fjöldafundi í Georgíu í gær.
Bandaríkjaforseti á fjöldafundi í Georgíu í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst lýsa yfir sigri í forsetakosningunum annað kvöld ef útlit er fyrir að hann hafi forskot á keppinaut sinn Joe Biden. Frá þessu greinir fréttavefurinn Axios og hefur eftir þremur heimildarmönnum sem kunnugir eru ummælum forsetans þessa efnis.

Hermt er að Trump hafi einslega rætt þessa sviðsmynd í nokkrum smáatriðum við starfsfólk sitt undanfarnar vikur. Lýsir hann áformum um að stíga í ræðustól á kosninganótt og lýsa yfir sigri.

Þetta myndi stríða gegn hefð sem lengi hefur verið við lýði, þar sem sá frambjóðandi sem bíður ósigur, eða öruggt þykir að muni tapa, hringir í sigurvegara kosninganna og játar ósigur sinn. Í framhaldinu stígur sigurvegarinn á svið frammi fyrir sínum stuðningsmönnum.

Talning eftir kjördag sé kosningasvindl

Bandamenn forsetans segjast búast við að til að Trump geri þetta muni hann þurfa að ýmist vinna eða hafa afgerandi forskot í Ohio, Flórída, Norður-Karólínu, Texas, Iowa, Arizona og Georgíu.

Fylkingin að baki forsetanum hefur undirbúið síðustu vikur og mánuði, leynt og ljóst, að fullyrða að utankjörfundaratkvæði sem talin eru eftir kjördag, þar sem reiknað er með að Biden auki fylgi sitt miðað við kjörfundaratkvæði talin á kjördegi, feli í sér kosningasvindl.

Geti breyst verulega eftir kjördag

Í Pennsylvaníuríki, sem þykir líklegast til að skera úr um hvor frambjóðendanna beri sigur úr býtum, er talið sennilegt að Trump muni líta út fyrir að hafa forskot í talningu á kosninganótt. Niðurstöðurnar geti þó breyst verulega þegar utankjörfundaratkvæði verða talin dagana þar á eftir.

Framboðshópur forsetans býr sig undir að fullyrða að ef sú talning breytir þeirri niðurstöðu sem útlit var fyrir á kosninganótt hafi demókratar „stolið“ kosningunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert