Mikill viðbúnaður í miðborg Vínarborgar

Vopnaðir lögreglumenn við Mariahilferstrasse í miðborg Vínarborgar skömmu eftir að …
Vopnaðir lögreglumenn við Mariahilferstrasse í miðborg Vínarborgar skömmu eftir að tilkynnt var um árásina fyrr í kvöld. AFP

Karl Nehammer, innanríkisráðherra Austurríkis, segir í samtali við þarlenda fjölmiðla að árásin sem var gerð í Vínarborg í kvöld hafi verið hryðjuverkaárás. Að minnsta kosti einn hefur beðið bana í skotárás sem varð við bænahús gyðinga í borginni. Fimmtán hafa særst, þar af sjö alvarlega. Lögreglumaður er á meðal þeirra sem hafa særst. Óttast er að fleiri hafi látið lífið. 

Nehammer segir að nokkrir byssumenn gangi enn lausir í borginni. Hann segir að hópurinn sé þungvopnaður og hættulegur. Búið er að kalla út nokkra hópa sérsveitarmanna sem vinna nú að því að hafa hendur í hári árásarmannanna. Leitin fer fram í Vín og nærliggjandi svæðum. 

Í einu myndskeiði, sem hefur verið deilt á samfélagsmiðlum, má sjá árásarmann, að því er talið er, gefa sig fram við lögreglu við verslun í miðborginni. 

Hópur vopnaðra manna réðst til atlögu á sex stöðum í borginni að sögn lögreglu, sem felldi einn árásarmannanna. Viðamikil lögregluaðgerð er nú í gangi í borginni. 

Vopnaðir lögreglumenn á vettvangi í Vinarborg í kvöld.
Vopnaðir lögreglumenn á vettvangi í Vinarborg í kvöld. AFP

Fólk hefur verið hvatt til að halda sig innandyra og ferðast ekki með almenningssamgöngum í borginni. Víða er búið að setja upp vegatálma. 

Myndefni sem birst hefur á samfélagsmiðlum sýnir vegfarendur á flótta er heyra má skothvelli í nágrenninu. 

AFP

Lögreglan segir að árásirnar hafi hafist við Seitenstettengasse-bænahúsið sem er aðalbænahús gyðinga í borginni. Oskar Deutsch, talsmaður gyðinga, greindi frá því á Twitter að bænahúsið hefði verið lokað þegar árásin hófst um kl. 20 að staðartíma (19 að íslenskum tíma). 

Gestir sjást hér yfirgefa óperuhús í borginni í kvöld þar …
Gestir sjást hér yfirgefa óperuhús í borginni í kvöld þar sem þungvopnaðir lögreglumenn sjást standa vörð. AFP

Fréttin verður uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert