„Þetta er náttúrlega alveg hrikalegt“

Helga Björk Arnardóttir hefur verið búsett í Vín í 14 …
Helga Björk Arnardóttir hefur verið búsett í Vín í 14 ár. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er náttúrlega alveg hrikalegt. Maður hefur oft hugsað hvað við höfum verið heppin í Vín þegar það hafa verið hryðjuverkaárásir í öðrum borgum í Evrópu,“ segir Helga Björk Arnardóttir um hryðjuverkið sem framið var í Vín, höfuðborg í Austurríkis, í kvöld.

Helga Björk hefur verið búsett í borginni í 14 ár ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum tveggja, sex og níu ára. Fjölskyldan býr í um hálftíma göngufjarlægð frá Schwedenplatz, þar sem árásin átti sér stað, en það er mjög fjölfarinn staður sem fjölskyldan er oft á, að sögn Helgu.

„Það eru allir í algjöru sjokki, á miðnætti byrjar „lockdown“ nr. 2 út af covid og það voru mjög margir að nýta síðasta tækifærið til að fara á veitingastaði því þeim er lokað á miðnætti. Það var líka óvenjulega hlýtt í dag og margir sem hafa nýtt tækifærið áður en öllu er lokað á morgun,“ segir hún.

„Við höfum verið að fá mikið af hrikalegum vídeóum þar sem maður sér hryðjuverkamennina skjóta á fólk, vídeó sem óbreyttir borgarar hafa tekið frá veitingastöðum. Eins og er eiga allir að halda sig heima, fullt af fólki er fast á veitingastöðum og miklar umferðarteppur hafa myndast,“ útskýrir Helga.

Veit ekki hvort börnin eiga að fara í skóla

Hún kveðst hafa frétt af árásinni frá vinum á messenger. „Vinkona mín er gift löggu sem skrifaði henni að hún ætti að koma sér heim strax með leigubíl og ekki taka opinberar samgöngur.“

Spurð hvort fjölskyldunni finnist hún óöruggari í Vín en áður svarar hún neitandi. „Nei, ég get ekki sagt það, allavega ekki til lengri tíma litið, en við eigum samt eftir að heyra betur hvað gerðist og hvers vegna. Það verður örugglega skrítið að fara út á morgun og ég veit ekki hvort maður á að senda börnin í skóla og leikskóla.

Maður hefur séð hryðjuverk gerast náttúrlega í mörgum borgum, í Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð og svo framvegis, á síðustu árum þannig að að vissu leyti hefur maður alltaf beðið eftir svona árás. Þetta er samt sem áður mikið sjokk og mjög sorglegt. Vínarborg er að mestu leyti mjög örugg og heimilisleg borg, þannig að manni líður svolítið eins og það hafi verið gerð árás á heimili manns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert