„Fólk er mjög hrætt“

Lögreglumenn gæta vettvangsins í morgun.
Lögreglumenn gæta vettvangsins í morgun. AFP

Íslendingur sem býr í Vín, höfuðborg Austurríkis, og starfar þar sem ráðgjafi á sviði lögreglumála segir fólk mjög hrætt vegna hryðjuverkaárása sem voru framdar í gær. Enn standa yfir heilmiklar aðgerðir í miðborginni og fólk hefur verið beðið að halda sig heima.

„Ég vinn á þessu svæði þar sem þessir atburðir gerðust. Skrifstofan mín er þarna bara metra frá Graben, sem er göngugatan í Vín, þar sem ein árásin var. Ég fer um þessa staði á hverjum degi svo það er ekki mjög skemmtileg tilhugsun auðvitað,“ segir Arnar Jensson, ráðgjafi á sviði lögreglumála hjá öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). 

Hann segir að það hafi verið hræðilegt að fá fréttirnar af árásunum í gær en hann vann sjálfur heima í gær og varð því ekki vitni að árásunum. 

Arnar Jensson er fyrrverandi lögreglumaður en starfar nú hjá ÖSE.
Arnar Jensson er fyrrverandi lögreglumaður en starfar nú hjá ÖSE. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Enginn á ferli

„Þetta var fyrsti dagurinn sem ég vann heima vegna Covid-aðgerða þannig að ég fór ekkert þarna inn í gær en þetta er auðvitað bara svakalegt. Mér skilst að það séu fimm látnir og sjö enn þá í alvarlegu ástandi eða lífshættu,“ segir Arnar. 

Fjórir lét­ust í árás­inni og var einn árás­armaður einnig skot­inn til bana af lög­reglu. Fleiri hafa verið hand­tekn­ir vegna máls­ins en óljóst er hversu marg­ir árás­ar­menn­irn­ir voru. Yf­ir­völd hafa beðið fólk að halda sig heima. 17 eru særðir eft­ir árás­ina, þar á meðal lög­reglumaður. Sjö þeirra eru í lífs­hættu eða mjög al­var­lega særðir. 

„Fólk er mjög hrætt. Það eru tilmæli frá yfirvöldum að allir haldi sig heima. Það var blaðamannafundur í morgun sem innanríkisráðherrann hélt og þar ítrekaði hann að fólk héldi sig fjarri miðborginni vegna þess að mér skilst á því sem hann sagði að það sé óljóst hvort fleiri hafi verið með en þessi eini sem var felldur. Það standa enn yfir heilmiklar aðgerðir í allri miðborginni þannig að það eru tilmæli til allra um að halda sig heima og það gera allir. Það er enginn á ferli.“

Starfar hjá deild sem fjallar um alþjóðlegar ógnir

Arnar segir aðspurður að líklegt sé að árásirnar verði teknar fyrir á vettvangi ÖSE. Þar sé unnið með fjöldamörgum ríkjum við uppbyggingu á löggæslu og meðal annars veitt aðstoð við að búa löggæsluna undir viðbrögð við árásum sem þessari. 

„Alveg örugglega vegna þess að deildin sem ég starfa hjá er deild sem fjallar um alþjóðlegar ógnir og það er fjallað um alla svona viðburði á vettvangi ÖSE.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert