„Fórnarlömb fyrirlitlegrar hryðjuverkaárásar“

Árásarmanna er enn leitað í Vínarborg. Ekki er á þessu …
Árásarmanna er enn leitað í Vínarborg. Ekki er á þessu stigi ljóst hversu margir þeir eru eða hversu margir hafa fallið vegna árásarinnar. AFP

Hryðjuverk var framið í Vín, höfuðborg Austurríkis, á mánudagskvöld. Að sögn lögreglunnar í borginni hófst árásin klukkan átta um kvöld að staðartíma þegar skotum var hleypt af á fjölsóttri götu í miðborginni, að því er fram kemur í umfjöllun AP.

Myndefni á samfélagsmiðlum, sem talið er vera frá árásinni í Vín, sýnir árásarmenn ganga um og skjóta á fólk af handahófi og er, þegar þetta er ritað, vitað um tvö tilfelli þar sem einstaklingar hafa látið lífið og hafa 15 særst, þar af sjö illa, meðal annars einn lögreglumaður.

Einn árásarmannanna var skotinn til bana en fleiri gerendur virðast enn ófundnir, upplýsti Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, í nótt. „Þeir virðast líka, að því er best er vitað, vera mjög vel búnir, með sjálfvirk vopn. Þeir voru mjög vel undirbúnir.“

Sebastian Kurz kanslari.
Sebastian Kurz kanslari. AFP

Fólkið sem varð í vegi hryðjuverkamannanna hafði lagt leið sína í miðborg Vínar, en mánudagskvöld var síðasti möguleiki til að sækja veitingahús, kaffihús og bari áður en nýjar sóttvarnareglur tóku gildi á miðnætti. „Við erum fórnarlömb fyrirlitlegrar hryðjuverkaárásar í höfuðborg sambandsríkisins,“ sagði Kurz.

Kanslarinn hrósaði lögreglunni fyrir að hafa drepið einn árásarmannanna. „Við munum aldrei láta hryðjuverk hræða okkur og munum berjast gegn þessum árásum með öllum ráðum.“

AFP

Ásetningur hryðjuverkamannanna er enn ekki þekktur og er hluti af rannsókn lögreglunnar, en skothríðin hófst skammt frá lokaðri sýnagógu (bænahúsi gyðinga) og sagði Kurz ekki hægt að útiloka að gyðingahatur hefði haft eitthvað með árásina að gera. Oskar Deutsch, forstöðumaður félags gyðinga í Vínarborg, sagði ekki ljóst hvort sýnagógan hefði verið skotmark.

Karl Nehammer innanríkisráðherra tilkynnti í nótt að herinn hefði verið beðinn að gæta lykilstaða í borginni á meðan hundruð þungvopnaðra lögreglumanna leituðu árásarmannanna. Hann hvatti fólk í Vínarborg til að halda sig innandyra og forðast miðbæinn og hvatti foreldra til að senda ekki börn sín í skólann á þriðjudag.

Gríðarlegur fjöldi lögreglumanna hefur verið í miðborg Vínar í alla …
Gríðarlegur fjöldi lögreglumanna hefur verið í miðborg Vínar í alla nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert