Guðlaugur sendir Austurríkismönnum samúðarkveðjur

AFP

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segist í áfalli yfir hryililegum árásum í Vínarborg. Í færslu á Twitter sendir hann austurrísku þjóðinni samúðarkveðjur. „Hugur okkar er með fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra. Við stöndum með austurrísku þjóðinni og fordæmum þessar hryðjuverkaárásir. Frelsi og lýðræði munu sigra og verða að sigra,“ segir Guðlaugur.

Fimmtán eru særðir eftir að hryðjuverkamenn létu til skarar skríða á sex stöðum í miðborg Vínarborgar í kvöld. Að minnsta kosti einn lét lífið.

Fjöldi leiðtoga hefur sent Austurríkismönnum samúðarkveðjur. Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að Frakkar deili áfallinu og sorginni með Austurríkismönnum, en skammt er liðið frá því þrír voru myrtir í hryðjuverkaárás í Nice í Frakklandi. „Þetta er okkar Evrópa. Óvinir okkar þurfa að vita hverja þeir eru að kljást við. Við munum ekki gefa eftir,“ skrifar Macron í færslu á þýsku sem hann birtir á Twitter.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir sömuleiðis að hugur bresku þjóðarinnar sé hjá Austurríkismönnum. „Við stöndum saman gegn hryðjuverkaógninni,“ segir Johnson.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að Evrópa í heild standi með Austurríkismönnum. „Við erum sterkari en hatrið og ógnin,“ skrifar hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka