„Þurfum við í alvöru að kjósa Biden?“

Helga Kristín Auðunsdóttir
Helga Kristín Auðunsdóttir

Fólk í herbúðum demókrata er ekki jafn sigurvisst og það var fyrir fjórum árum þegar Hillary Clinton fór fram fyrir hönd demókrata. Er það mál margra að stjórnmálaskýrendur hafi tilhneigingu til þess að ætla að stór hluti utankjörfundaratkvæða sé lóð á vogarskálar Bidens en aðrir benda á það að hátt hlutfall utankjörfundaratkvæða geti einfaldlega þýtt að fólk vilji ekki  lenda í mannþröng á kjördag vegna Covid-faraldursins. Þetta er meðal þess sem Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst og doktorsnemi í lögfræði við Fordham-háskólann í New York, segir.

Helga var sjálfboðaliði í framboði Hillary Clinton árið 2016. Í dag er kjördagur og mikil eftirvænting í loftinu í Bandaríkjunum. 

„Fólki finnst erfitt að spá um úrslitin þvert á það sem var þegar Clinton og Trump áttust við. Þá voru allir sannfærðir um sigur Clinton og þrátt fyrir að flestir í kringum mig ætluðu að kjósa Hillary skiluðu þeir sér engu að síður ekki á kjörstað,“ segir Helga.

Biden ekki augljós kostur 

Hún segir marga New York-demókrata ekki sérstaklega spennta fyrir Biden sem frambjóðanda. „Biden er ekki augljós kostur fyrir fólk. Hann sendir ekki jafn skýr skilaboð og Trump gerir þótt það megi deila um það hvort skilaboð Trumps séu góð eða ekki. Fyrir vikið eru margir demókratar að hugsa: Þurfum við í alvöru að kjósa Biden? Þetta er svolítið annar kandídat en var þegar Hillary var í framboði. Hún var skýr valkostur því hún var kona, með svolítið aðra orðræðu en hafði þekkst í Bandaríkjunum. Svo núna kemur Biden í kjölfarið og margir spyrja sig: Er þetta það eina sem er í boði,“ segir Helga Kristín. 

Vísar hún þar til þess að mörgum þyki prófíll Bidens óspennandi. Kerfiskarl úr stjórnmálum sem tákni gamla tíma. „Margir segja að það sé ekki skýrt sem fylgir atkvæðaseðli Bidens. Það eina sem menn telja skýrt er að þeir fá ekki Trump,“ segir Helga.   

Sumum demókrötum þykir Biden óspennandi kostur.
Sumum demókrötum þykir Biden óspennandi kostur. AFP


 

Atvinnulífið hefur blómstrað 

Hún segir að það þyki Trump til tekna hvernig atvinnulífið hefur blómstrað síðan hann tók við. Þá hafi Covid-faraldurinn spilast óvænt upp í hendurnar á honum að einu leyti. Áhersla hans á viðskiptahindranir hafi gert það að verkum að innlend framleiðsla hefur aukist og fyrir vikið hafa Bandaríkin þurft á minni innflutningi að halda en ella hefði verið á Covid- tímum. „Svo er annað mál hvort hann hafi hrint í framkvæmd öllu því sem hann segist hafa gert. Hann segist hafa gert alls konar hluti þótt raunveruleikinn sé kannski annar. Trump gerir sér grein fyrir því að ef hann fær fólk til að trúa því að líf þess sé betra þá skiptir það mestu máli. Þetta snýst því í raun um hvort fólk trúi honum,“ segir Helga. 

„Það eru komin störf í ríkjum þar sem ekki voru störf áður. Það má segja að hann hafi efnt loforð sín við þá sem eru líklegir til að kjósa hann,“ segir Helga. Á hún þá við dreifbýl svæði þar sem atvinnuuppbygging hefur átt sér stað. Jafnvel á svæðum þar sem atvinnleysi hefur verið mikið árum saman.

Þá segir hún að sjálfstæðir atvinnurekendur séu mjög margir í Bandaríkjunum og líti sumir á málin sem svo að þeir hafi ekki tök á fara út í óvissu í skattamálum. Trump hafi í það minnsta sýnt spilin gagnvart atvinnulífinu og lækkað skatta.  

Verða efnahagsmálin ofan á?

Ekki hefur farið framhjá neinum að forsetatíð Trumps hefur verið stormasöm. Ýmsir skandalar hafa komið upp auk þess sem Black lives matter-hreyfingin hefur risið, aukin áhersla er á kvenréttindi auk Covid-19-faraldursins. 

Telur Helga að beinskeytt orðaskipti Trumps hafi áhrif á það hvernig andstæðir pólar hafa tekist á en þáttur pólitískra andstæðinga sé einnig vanmetinn. „Andstæðingar hans í pólitík hafa nýtt tækifærið og ýtt undir ólguna sem leitt hefur til þess að ýmis mikilvæg mál hafa komist á dagskrá. Hann er mjög hreinskiptinn í samskiptum og það vekur reiði þeirra sem njóta ekki sömu aðstöðu í þjóðfélaginu. Skoðanaskiptin snúast ekki um pólitík lengur eða málefnið, heldur eitthvað allt annað,“ segir Helga. 

Black Lives Matter-hreyfingin hefur haft mikil áhrif í Bandaríkjunum.
Black Lives Matter-hreyfingin hefur haft mikil áhrif í Bandaríkjunum. AFP

„Það er áhugaverðast við kvöldið að sjá hvort fólk kýs hann þrátt fyrir alla þessa ólgu. Hefur þessi ólga kannski ekki þau áhrif sem margir halda? Kýs fólk hann þrátt fyrir hana? Kýs fólk einfaldlega út frá þeirri efnahagslegu stöðu sem það er í?“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert