Miðað við núverandi stöðu þykir Joe Biden, frambjóðandi demókrata, líklegri en Trump Bandaríkjaforseti til þess að hljóta útnefningu til forseta. Biden leiðir í Nevada, Arizona, Michigan og Wisconsin og ef hann sigrar í öllum þeim ríkjum þá hlýtur hann þau 270 kjörmannaatkvæði sem til þarf.
Í nótt var það mál manna að Trump hefði unnið verulega á og voru stuðningsmenn Bidens órólegir yfir stöðunni. Strax eftir miðnætti leit út fyrir að Trump myndi hafa betur í Flórída, en margir höfðu áður sagt að Biden hefði átt sigurinn vísan hefði hann unnið í Flórída. Nú þegar komið er undir kvöldmatarleytið er þó ekki enn útséð um hver verður næsti forseti Bandaríkjanna, en það verður að segjast að staðan er álitleg fyrir Biden.
Nú þegar úrslit eiga enn eftir að ráðast í Wisconsin, Norður-Karólínu, Georgíu, Michigan, Nevada, Pennsylvaníu og Alaska eru álitsgjafar og sérfræðingar farnir að spá Biden sigri. Biden hefur nú þegar sigrað í Arizona, ríki sem enginn demókrati hefur unnið síðan 1996 þegar Bill Clinton hafði þar betur.
Ástæða þess að ekki liggja enn úrslit fyrir í fyrrgreindum ríkjum er sú að gríðarlegur fjöldi kjósenda kaus utan kjörfundar og jafnvel með svokölluðum póstatkvæðum vegna kórónuveirufaraldursins. Lög í þeim ríkjum sem enn eiga eftir að skila endanlegum niðurstöðum kveða nefnilega á um að ekki megi byrja að telja utankjörfundaratkvæði fyrr en kjörstöðum er lokað, ekki bara jafnóðum og þau berast eins og víða annars staðar.
Hins vegar eru demókratar mun líklegri til þess að kjósa með póstatkvæðum og utankjörfundar almennt og þess vegna er talið líklegt að Biden eigi bróðurpart allra þeirra atkvæða sem eftir á að telja. Hann leiðir semsagt í ríkjum, sem enn eiga eftir að telja atkvæði sem líklega falla honum í skaut. Útlitið er því dökkt fyrir Trump.
Þegar skammt var liðið á kosninganóttina fór Trump Bandaríkjaforseti mikinn á Twitter eins og hann er vanur. Í gærkvöldi talaði hann um að útlitið væri gott fyrir sig og sína stuðningsmenn, sem það svo sannarlega var – hann hafði nýlega gert gott mót í Flórída miðað við fyrstu tölur og leit út fyrir að vera að vinna á.
Í gærkvöldi gekk hann síðan svo langt að lýsa yfir sigri. Það fór þó ekki vel í greinendur og álitsgjafa sem sögðu að Trump hefði mögulega hlaupið á sig. Það getur vel hafa gerst eins og staðan nú ber með sér – það stefnir allt í sigur Bidens.
Eftir að það varð ljósara síðdegis í dag fór að kveða við annan tón á twittersíðu forsetans. Hann fór að tala meira um kosningasvindl, falsaða kjörseðla og vildi að talning atkvæða yrði stöðvuð. Margir túlka þessa framgöngu forsetans sem hálfgerða uppgjöf. Twitter brá meira að segja á það ráð að fela tíst forsetans.
Ekki er þó öll von úti fyrir Trump. Samkvæmt New York Times getur eftirfarandi staða t.a.m. komið upp:
Þetta er þó alls ekki tæmandi listi en það verður að teljast ólíklegt að Trump vinni nokkurn tímann Nevada eða Wisconsin til dæmis. Talningu er nánast lokið í Wisconsin og Biden leiðir. Líklegt er þó að Trump fari fram á endurtalningu í Wisconsin.
Trump getur vel unnið Norður-Karólínu og gerir það sennilegast, en ólíklegt verður að teljast að hann vinni Nevada, þrátt fyrir að staðan sé þar hnífjöfn. Biden er nefnilega talinn eiga meirihluta þeirra atkvæða sem enn á eftir að telja í Nevada eins og fyrr segir.