Demókratar halda fulltrúadeildinni

Nancy Pelosi, er forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi demókrata í …
Nancy Pelosi, er forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi demókrata í deildinni. AFP

Útlit er fyrir að demókratar haldi meirihluta sínum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Fyrir kosningar hafði flokkurinn 232 sæti í deildinni, 35 fleiri en repúblikanar.

Þegar þetta er skrifað er búið að lýsa yfir sigurvegara í nærri helmingi kjördæma. Hafa demókratar náð tveimur sætum sem áður tilheyrðu repúblikunum, en misst tvö sem áður tilheyrðu þeim yfir til repúblikana.

Enn sem komið er er því ekki útlit fyrir miklar breytingar á samsetningu þingsins og þarf mikið að gerast í þeim kjördæmum sem eftir eru til að repúblikanar nái meirihluta í deildinni.

Kosið er um öll sæti fulltrúadeildarinnar á tveggja ára fresti. Demókratar náðu meirihlutanum í síðustu kosningum árið 2018 en flokkurinn hafði þá verið í minnihluta frá árinu 2010 á miðju fyrra kjörtímabili Baracks Obama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert