Oddur Þórðarson
Joe Biden, frambjóðandi demókrata til forseta Bandaríkjanna, tjáði sig við fjölmiðlamenn í heimabæ sínum í Wilmington, Delaware nú á tíunda tímanum. Hann tók skýrt fram að hann væri ekki að flytja sigurræðu en að þrátt fyrir það væri hann nokkuð viss um að stæði uppi sem sigurvegari kosninganna þegar öll atkvæði hafa verið talin.
Eins og hann hefur áður gert sagði Biden að hann yrði forseti allra Bandaríkjamanna, ekki bara þeirra sem kusu hann. Mun fleira sameinaði bandarísku þjóðina en sundraði henni. Hann sagði einnig að nú væri mikilvægast að telja öll atkvæði sem greidd voru í gær á kjörstöðum og utankjörfundar í aðdraganda kosninganna - lýðræðið ætti að virða, enginn tæki lýðræðið frá Bandaríkjamönnum.
Eins og áður sagði tók Biden það skýrt fram við fjölmiðla að hann væri ekki að flytja sigurræðu en að hann væri samt sem áður sigurviss. Trump var það einnig í gær þegar hann lýsti yfir sigri, eitthvað sem álitsgjafar og greinendur sögðu að hafi verið alveg glórulaust og innistæðulaust. Síðan þá hefur kveðið við nýjan tón hjá sitjandi forseta, sem hefur meðal annars sakað Biden og demókrataflokkinn um kosningasvindl.
Nú verður Biden aðeins að vinna í Nevada en þar er hnífjafnt sem stendur.