Margar kannanir langt frá niðurstöðunni

Joe Biden og Donald Trump.
Joe Biden og Donald Trump. AFP

„Maður var að vona að það myndi eitthvað vera búið að lagast frá því fyrir fjórum árum en margar kannanir hafa verið frekar langt frá niðurstöðunni í þetta skiptið líka. Þær aðgerðir sem menn hafa gripið til fyrir fjórum árum virðast ekki hafa dugað til,“ segir Hafsteinn Einarsson, doktorsnemi í félagstölfræði við Manchester-háskóla.

Skoðanakannanir gerðu langflestar ráð fyrir sigri Bidens en mjótt er á mununum og niðurstaða jafnvel ekki væntanleg fyrr en að einhverjum dögum liðnum. Ljóst er að einhver skekkja er í könnunum, líkt og í kosningunum fyrir fjórum árum, þrátt fyrir aðgerðir sem Hafsteinn segir að gripið hafi verið til eftir þær kosningar.

Atkvæði vigtuð í könnunum

Þær aðgerðir snúast meðal annars um að vigta atkvæði eftir menntun. Hafsteinn útskýrir að vigtun atkvæða snúist um að gefa ákveðnum svarendum, sem talið er að vanti upp á í úrtakið, aukið vægi. Verið er að gefa sér að ákveðinn hópur sé ólíklegri að svara og ef einhver úr þeim hópi svarar hlýtur hans svar aukið vægi.

„Vandamálið við kannanir er oft að það getur verið að þú leysir eitt vandamál en svo kemur upp nýtt vandamál sem þú áttir ekki von á. Það er of snemmt að segja til um hvort það hafi hjálpað að vigta með þessum hætti,“ segir Hafsteinn þegar hann er spurður hvort vigtunin hafi ekki skilað tilætluðum árangri.

Hafsteinn telur að prósentutalan, þegar öll atkvæði eru talin, verði nær því sem kannanir spáðu fyrir um en staðan er núna. „Aðallega vegna þess að það á eftir að telja gríðarlega mikið af atkvæðum á vesturströndinni. Það sem virðist vera stóra vandamálið, og var það líka síðast, er að kannanir í einstökum ríkjum eru oft mjög langt frá réttri niðurstöðu,“ segir Hafsteinn en dæmi um slíkt ríki er Flórída.

Atkvæði talin í Detroit.
Atkvæði talin í Detroit. AFP

„Það bjuggust allir við að Flórída yrði spennandi en Trump er að vinna með þremur prósentum, sem er meira heldur en kannanir gerðu ráð fyrir. Þar hefur eitthvað gerst.“

Mikil sveifla frá könnunum í Flórída

Biden mældist með forskot í könnunum þar en Hafsteinn segir eina af tilgátunum vegna sigurs Trumps þar vera fjöldi fólks af suðuramerískum uppruna sem kaus Trump; mun fleiri en fyrir fjórum árum.

„Það virðist hafa dugað til að vega upp á móti því að sem fólk hélt að myndi hjálpa Biden; því að eldra hvítt fólk var líklegra til að kjósa hann en Hillary Clinton,“ segir Hafsteinn og heldur áfram:

„Það virðist hafa skipt máli að í borgum og svæðum þar sem fólk af mið- og suðuramerískum uppruna er fjölmennt stóð Trump sig mun betur en spár gerðu ráð fyrir. Það getur verið erfiðara að ná í þann hóp en aðra. Sömuleiðis benda útönguspár til þess að þeir sem hafi ákveðið sig síðustu vikuna fyrir kosnignar hafi verið ólíklegri til að kjósa Biden en þeir sem ákváðu sig snemma.“

Lágt svarhlutfall og feimnir stuðningsmenn forsetans

Nefnt hefur verið að svarhlutfall í könnunum í aðdraganda kosninganna sé lágt en Hafsteinn segir aldrei hafa verið sannað að gæði kannana séu minni ef svarhlutfall sé lágt. „Auðvitað hefur maður þó áhyggjur þegar svarhlutfall er jafn lágt og í Bandaríkjunum, það er mun lægra en það sem við eigum að venjast hér á landi.“

Hafsteini þykir tilgátan um „feimna Trumparann“ ólíkleg en samkvæmt henni lugu stuðningsmenn forsetans í könnunum eða þorðu einhverra hluta vegna ekki að segja skoðun sína. „Mér finnst ólíklegt að fólk sé að ljúga. Mér finnst líklegra að fólkið svari ekki símtalinu eða það sé erfitt að ná í það. Mér finnst fátt benda til þess að stuðningsmenn Trump þykist kjósa Biden. Hitt er líklegra, að stuðningsmenn Trump hafi heyrt hann tala um „fake polls“ og séu því ólíklegri til að taka þátt en aðrir.“

Hafsteinn Einarsson.
Hafsteinn Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Hafsteinn segir ljóst að kannanir í aðdraganda kosninganna nú og fyrir fjórum árum verði ekki til þess að fólk hafi óbilandi trú á þeim í aðdraganda forsetakosninganna 2024. Hann segir þó að þrátt fyrir ýmsa vankanta séu kannanir bestu upplýsingar sem fáist um stöðuna.

„Þetta er betra en ef fólk myndi eingöngu reiða sig á fjölmiðlaumfjöllun. Þá væri erfitt að útskýra af hverju Trump er þetta nálægt sigri,“ segir Hafsteinn sem bendir enn fremur á að helsta ástæðan fyrir spennunni sé kosningakerfið:

„Joe Biden mun fá mörgum milljónum fleiri atkvæði en Trump, vegna þess að hann mun vinna Kaliforníu með yfirburðum. En staðan í lykilríkjum er hins vegar hnífjöfn og því er spennan svona mikil. Kannanir spáðu Biden sigri upp á um 8%, en líkt og Hillary Clinton komst að fyrir fórum árum þurfa Demókratar að vinna með meira en 3%. Útlit er fyrir að Biden vinni með meiri mun en það í ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert