Ocasio-Cortez örugg með sigur

Alexandria Ocasio-Cortez þingkona í fulltrúardeild Bandaríkjaþings.
Alexandria Ocasio-Cortez þingkona í fulltrúardeild Bandaríkjaþings. AFP

Þingkona demókrata í fulltrúadeildinni, Alexandria Ocasio-Cortez, tryggði sér örugglega sæti áfram í deildinni þrátt fyrir að andstæðingur hennar, repúblikaninn John Cummings, hefði náð að safna háum fjárhæðum í kosningabaráttunni.

Cummings vonaðist til þess að víðtækur stuðningur íhaldsmanna víðsvegar að myndi duga til að hafa betur í baráttunni gegn Ocasio-Cortez, sem er ein helsta stjarna þeirra sem eru vinstra megin í bandarískum stjórnmálum. 

Alexandria Ocasio-Cortez.
Alexandria Ocasio-Cortez. AFP

Þrátt fyrir 10 milljónir bandaríkjadala, rúmlega 1,4 milljarða króna, virðist Cummings, sem er 60 ára gamall fyrrverandi lögreglumaður og menntaskólakennari, ekki hafa roð við Ocasio-Cortez, sem er 31 árs. Nú þegar eru stjórnmálaskýrendur farnir að velta fyrir sér framhaldinu. Mun hún verða áfram í fulltrúadeildinni eða stefnir hún hærra? Sjálf segir hún allt óráðið þar um. 

Sjá nánar í New York Times

Þegar Ocasio-Cortez var kjörin á þing var hún yngsti þingmaður sögunnar í fulltrúadeildinni. Nú náði hún því marki að safna yfir 17 milljónum dala í kosningabaráttunni, sem er það næstmesta sem nokkur hefur safnað í baráttunni um þingsæti í fulltrúadeild Bandaríkjanna.

Þegar búið er að telja 65% atkvæða er þingkonan, sem gengur undir heitinu AOC, með 38% forskot á Cummings. Árið 2018 var hún með tæplega 80% atkvæða. 

Ocasio-Cortez lýsir sjálfri sér sem Bronx-stelpu ættaðri frá Púertó Ríkó en frá því hún var kosin í New York í nóvember hefur hún orðið fyrir barðinu á gagnrýni frá íhaldsfólki og ekki síður öfgahægrihópum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert