Donald Trump hefur borið sigur úr býtum í Flórída gegn Joe Biden, frambjóðanda demókrata. Eftir að 89% atkvæða hafa verið talin er Trump með 50,3% en Joe Biden með 48,7%.
Á undanförnum áratugum hefur enginn forseti Bandaríkjanna sigrað í kosningum án þess að vinna í ríkinu. Þá var talið líklegt að ef Biden ynni Flórída væri sennilega öll von úti fyrir Trump.
Ríkið er þekkt fyrir ofurnaum úrslit. Að öllum líkindum verða öll atkvæði talin í Flórída um klukkan fimm að íslenskum tíma, eða á miðnætti að staðartíma.
Nú þykir líklegt að brugðið geti til beggja vona hvað lokaúrslit kosninganna varðar og útlit er fyrir langa og spennandi kosninganótt. Fylgst verður grannt með öllum vendingum á mbl.is.