„Við erum á sigurbraut“

Forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, Joe Biden, er sigurviss en varar kjósendur við því að það taki tíma þangað til niðurstaðan er ljós. Biden ávarpaði stuðningsmenn sína í Delaware nú á sjötta tímanum.

Að sögn Bidens var vitað að þetta væri löng leið en um leið væri hann viss um að vera á sigurbraut. Hann lagði áherslu á að kjósendur sýndu biðlund því ekki yrði ljóst hver væri réttkjörinn forseti Bandaríkjanna fyrr en öll atkvæði hefðu verið talin.

Enn er staðan óljós og staðan ekki ljós í ýmsum lykilríkjum. Biden fylgist með talningunni í heimaborg sinni, Wilmington í Delaware. „Þessu lýkur ekki fyrr en öll atkvæði hafa verið talin,“ sagði Biden og bað kjósendur sína að sýna biðlund.

Biden, sem er 77 ára gamall og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, segist sannfærður um að Arizona sé hans, vígvöllur sem Trump hafði betur á fyrir fjórum árum þegar Hillary Clinton var frambjóðandi demókrata. Eins og staðan er núna er Biden með gott forskot í Arizona þegar 77% atkvæða hafa verið talin.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert