Donald Trump hefur beðið dómara um að stöðva talningu atkvæða í Michigan-ríki þar sem keppinautur hans, Joe Biden, hefur nauma forystu. AFP greinir frá.
Kosningastjóri Trumps, Bill Stepien, segir að teymi hans hafi ekki fengið að fylgjast með talningu atkvæða á „fjölmörgum“ talningarstöðum eins og lög gera ráð fyrir. Hann hefur þó ekki fært neinar sönnur á þessar fullyrðingar.
Þegar 94% atkvæða hafa verið talin í ríkinu er Joe Biden með 49,5% en Trump með 48,8%. Munar um 38.000 atkvæðum á frambjóðendunum.
Sextán kjörmenn eru í Michigan og þarf Trump sárlega að vinna ríkið til að eiga raunhæfa möguleika á sigri.