Hashim Thaci hefur sagt af sér embætti forseta Kósóvó eftir að stríðsglæpadómstóllinn í Haag ákærði hann fyrir stríðsglæpi.
Tachi, sem er 52 ára, sagðist hafa ákveðið að segja af sér til að „vernda orðspor“ forsetaembættisins eftir að dómari staðfesti ákæruna. Hún tengist frelsisstríði Kósóvó gegn Serbíu á tíunda áratugnum þegar Thaci var yfirmaður í uppreisnarher Kósóva.
„Ég mun starfa náið með dómstólnum. Ég trúi á sannleikannn, sáttir og framtíð landsins okkar og þjóðfélags,“ sagði hann á blaðamannafundi í Pristina, höfuðborg Kósóvó.
Thaci og níu aðrir eru sakaðir um að hafa borið ábyrgð á um 100 morðum í frelsisstríðinu árin 1998-1999. Yfir tíu þúsund manns létust í stríðinu sem lauk ekki fyrr en Nató skarst í leikinn. Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði sínu árið 2008, en Serbar hafa enn ekki viðurkennt það.